Innanhússtímabilið hófst formlega hjá mér í dag. Hljóp 1500m á næstbesta tímanum mínum innanhúss; 3:52.97 mín og það var ALLS EKKI ALL-OUT! Tveir eða þrír aðrir en ég voru skráðir inn í hlaupið með tíma undir 4 mín, sá besti á 3:46 mín síðan 2001 en bara 3:52 mín síðan í fyrra. Einhverra hluta vegna kepptust menn um að fá að vera hérar í dag og því breyttist keppnisplanið mitt svolítið. Í staðinn fyrir vel rólega fyrstu 800m (eins og ég hafði „vonast eftir“) elti ég fyrri hérastubbinn gegnum 400m á ca. 62 sek, 600m á ca. 1:33 mín og þá tók seinni hérinn við – niðurstaðan ca. 2:05-2:06 mín á 800m. Ég var „hálfpartinn“ búinn að lofa harðstjóranum henni Rakel að hlaupa síðustu 800m eins og geðsjúkur haltur hundur væri á hælunum á mér en eins og fólk veit þá er miklu auðveldara að semja við sjálfan sig – sérstaklega þegar maður fer 2-4 sek hraðar fyrri helming hlaupsins en áætlað var!
Seinni hérinn þráaðist við rétt tæplega 300m í viðbót (á allt of litlum hraða skv. fyrrnefndum harðstjóra) svo ég fékk 1100m splitt upp á ca. 2:53 mín. Keppnislaust hljóp ég svo síðustu 400m á undir 60 sek (30 – 30) og það var bara þannig.