Jæja Atli, vertu velkominn aftur til starfa. Hvernig er heilsan?

„Bara fín. Ég er búinn að mæta á æfingar þessa vikuna og er allur að koma til. Það mætti kannski segja að heilsan verði betri með hverjum sigurleik strákanna!“

Nú hefur verið mikill munur á liðinu fyrir og eftir áramót. Voru menn bara svona lengi í gang?

„Ég held að það hafi bara þurft smá sjálfstraust. Þeir leikir sem voru að tapast með 1 marki fyrir áramót, eru að vinnast með 1 marki núna. Menn hafa verið að stíga upp að undanförnu og er það mjög jákvætt.“

Eftir frábæran útisigur gegn KA í síðustu viku er næst komið að Stjörnunni, sem eru nýkrýndir bikarmeistarar. Er raunhæft að stefna að sigri í leiknum og hvað þarf FH-liðið að gera til að ná fram sigri?

„Mig langar fyrst og fremst tala um hvað þetta er búið að vera frábært í fjarveru minni. Addi (Arnar Geirsson aðst.þjálfari) og Einar (Andri Einarsson, yngri flokka þjálfari og aðstoðarmaður Adda í fjarveru Atla) eru búnir að standa sig með mikilli prýði og hafa náð miklu útúr liðinu. Stjarnan er á mikilli siglingu en ég held að við eigum góðan möguleika. Þetta verður erfiður leikur og í rauninni þarf allt að ganga upp hjá okkur til þess að sigra. Þeir áttu erfiðan leik gegn KA á miðvikudag sem þeir unnu með 1 marki og við þurfum því að eiga algjöran toppleik. Við töpuðum illa gegn þeim síðast og þá vantaði þá Patrek Jóhannesson, þannig að við þurfum að leggja enn meira á okkur núna.“

Valur Arnarsson, fyrirliði, hefur virkilega blómstrað í vinstri skyttunni að undanförnu. Er þetta eitthvað sem blundaði alltaf í ykkur að prófa og hefði eftir á séð, e.t.v. mátt reyna þetta fyrr?

„Þetta er eitthvað sem við töluðum um lengi, en okkur fannst hann vera það mikilvægur í vinstra horninu að erfitt væri að færa hann út fyrir. Svo eigum við auðvitað líka fullt af leikmönnum til þess að klára skyttustöðuna. En Valur hefur auðvitað staðið sig vonum framar í skyttunni og því má segja að þetta hafi komið ágætlega út.“

Nú er FH-liðið nánast „á þröskuldinum“ um sæti í efstu deild að ári, en baráttan er hörð. Hvaða lið munu að þínu mati ná að enda í efstu deildinni?

„Það er rosalega erfitt að segja til um það. KA  eru allt í einu komnir inn í þennan pakka og mörg lið hafa verið að sækja stig að undanförnu, t.d. Afturelding. Þá töpuðu ÍBV naumlega fyrir Fram um daginn og því eru allir ennþá í baráttunni. Það er eiginlega ómögulegt að segja til um þetta.“

Áður en við kvöddum Atla og þökkuðum honum kærlega fyrir spjallið, spurðum við hann hinnar sígildu spurningar um sigurvegara á HM í knattspyrnu í Þýskalandi, næsta sumar.

„Úff(hlær), ég á mér nú nokkur uppáhaldslið. Þjóðverjarnir hafa nú verið ofan á hjá mér, en eftir þetta stórtap gegn Ítalíu á dögunum varð ég að endurskoða það og í dag eru Spánverjarnir mínir menn!!“

Leikur FH og Stjörnunnar hefst kl. 20:00 í Kaplakrika, sunnudagskvöldið 12. mars. FH-ingar, fjölmennum á völlinn og styðjum strákana til sigurs!