Það stefndi allt í hörkuleik FH og nýbakaðra bikarmeistara Stjörnunnar. Framan af var jafnt á flestum tölum þótt Garðbæingar hafi alltaf verið fyrri til að skora. Um miðjan hálfleikin var staðan 6-6 og bæði lið að leika nokkuð vel, sérstaklega markverðirnir Roland Eradse hjá Stjörnumönnum og Elvar Guðmundsson í liði heimamanna. Eftir það sigu Stjörnumenn nokkuð framúr og höfðu 4 marka forystu í hálfleik 10-14.

Þetta bil náðu FH-ingar ekki að brúa, þegar skammt var til leiksloka náðu FH að minnka muninn í 3 mörk en óðagot í sóknarleiknum varð til þess að við náðum ekki að setja Stjörnumenn undir verulega pressu og þeir innbyrtu því nokkuð öruggan og sanngjarnan sigur.

Eftir gott gengi í undanförnum leikjum má segja að FH-ingar hafi komist niður á jörðina í gærkvöldi. Það vantaði tvo af sterkari mönnum Stjörnunnar í gær, stórskyttuna Tite Kalanadze og hornamanninn David Kekelia en það virtist ekki koma að sök. FH-ingar voru einfaldlega ekki nógu grimmir og virtust ekki hafa fulla trúa á að þeir gætu lagt Stjörnuna. Patrekur Jóhannesson var lengstum tekinn úr umferð en FH vörnin var samt alls ekki nógu þétt og lagaðist ekki fyrr en Pálmi Hlöðversson kom inn á seint um síðir.

Rolend Eradze lék FH-inga grátt og varði hvað eftir annað í dauðafærum og Patrekur Jóhannesson skoraði mikilvæg mörk þegar hann losnaði úr gæslunni.

Hjá FH var Elvar markvörður í miklum ham og varði 22 skot, Valur Arnarson var helsta ógnunin í sókninni en fór þó illa með nokkur dauðafæri. Jón Helgi Jónsson kom frískur inn í hægri skyttuna og hefði jafnvel mátt reyna það fyrr en það er auðvelt að vera vitur eftir á. Linas var öryggið uppmálað á vítalínunni.

FH-ingar eru enn í 9. sæti, tveimur stigum á eftir ÍR og KA  sem eru í 7. og 8. sæti þ.a. við eigum enn góðan möguleika á úrvalsdeildarsæti að ári en til þess þurfum við að spila miklu betur en í gær.