Leikur B-liðanna:

B-liðið lék kl.12 í Kaplakrika. Breiðablik byrjaði betur í leiknum og fengu nokkur góð færi til að ná forystunni en Tómas Orri Hreinsson í marki FH sá við þeim í öll skiptin en Tomasso átti stórleik í FH-markinu. FH-ingar unnu sig þó inn í leikinn og Ísak Bjarki Sigurðsson náði forystunni á 36. mínútu er hann fylgdi eftir skoti af harðfylgi og skilaði boltanum í netið.

FH-ingar fóru því með 1-0 forystu í hálfleik, nokkuð gegn gangi leiksins en hverjum er ekki sama um það?

Í seinni hálfleik komu FH-ingar ákveðnari til leiks og Ísak bætti við sínu öðru marki er hann batt endahnútinn á góða sókn. Nú var Hilmar Ástþórsson kominn í mikið stuð á vinstri kantinum og Blikarnir í mesta basli með hann og Ásgeir Gunnarsson lék vel í vörninni.

Blikar sóttu í sig veðrið og náðu yfirhöndinni aftur en Tómas var sá þröskuldur sem þeir komust ekki yfir í markinu og varði í þrígang í dauðafærum. Breiðablik náði loks að minnka muninn 10 mínútur fyrir leikslok og lokakaflinn var æsilegur, bæði lið sóttu á víxl en FH-ingar náðu að landa góðum sigri.

FH-ingar geta spilað mun betur en í þessum leik en hafa ber í huga að þetta var fyrsti leikur FH í mótinu og liðið á eftir að spila sig betur saman.

Bestu menn FH voru Tómas í markinu, Ásgeir átti góðan leik í vörninni og minnti jafnvel á Steve Bruce fyrrum fyrirliða United á sínum blómatíma. Ísak var svo geysilega grimmur og beittur í sókninni og Hilmar átti góðan seinni hálfleik.

Lið FH: Tomasso, Hólmar, Guðjón, Ásgeir, Arnar, Davíð Sig, Garðar, Vignir (f), Jökull, Hilmar, Davíð Steinars, Árni Grétar.

Leikur A-liðanna fór fram kl. 18 á Leiknisvelli.

Þetta var í fyrsta skipti sem FH nær að tefla fram nær fullu liði en þó vantaði  bakvörðinn knáa og eitilharð; Hafþór Þrastarson en hann handleggsbrotanaði í glímu á dögunum. Stórhættuleg íþrótt!

FH-ingar voru betri aðilinn frá upphafi og fóru illa með nokkur færi áður en Brynjar Benediktsson náði forystunni á 20. mínútu. Brynjar bætti svo öðru marki við á 38. mínútu og á lokamínútu fyrri hálfleiks bætti Björn Daníel Sverrisson við þriðja markinu og FH því 3-0 yfir í hálfleik.

FH-ingar virtust líklegir til að bæta við fjórða markinu í upphafi seinni hálfleiks og gera þar með út um leikinn en gáfu kæruleysislegt mark og skömmu síðar minnkuðu Blikar muninn í 2-3 og leikurinn skyndilega galopinn. Davíð Þorgilsson bætti þó við fjórða markinu á 60. mínútu og Brynjar Benediktsson bætti því fimmta við um 10 mínútum fyrir leikslok og fullkomnaði þar með þrennuna en fékk þó ekki að eiga keppnisboltann.

Í uppbótartíma færðist enn meira líf í tuskurnar því Siggi Senderos bætti við sjötta markinu eftir hornspyrnu og skömmu síðar setti Davíð Þorgilsson það sjöunda. Feita konan var þó ekki enn búin að syngja því Breiðablik átti lokaorðið og minnkuðu muninn í 3-7 með nánast síðustu spyrnu leiksins.

FH-strákarnir fögnuðu vel í leikslok því þetta er góð byrjun á mótinu. Allt liðið lék vel og strákarnir spiluðu virkilega góðan bolta og vinnslan og baráttan í liðinu var mjög góð. Ég verð þó sérstaklega að hrósa strákunum þremur á yngra ári þeim Gunnari Páli sem lék vel á miðjunni og þeir Guðmundur og Axel áttu mjög góðan leik í bakvarðastöðunum.

Lið FH: Aron (f), Guðmundur, Óli, Siggi, Axel, Björn Daníel, Gunnar, Maggi, Örn Rúnar, Hákon, Brynjar og Davíð Þorgilsson.

Næstu leikir hjá FH í Faxaflóamótinu er gegn HK á Kaplakrika á þriðjudaginn. A-liðið leikur kl. 18.00 og B-liðið kl. 19.30.