Davíð er glaður og reifur þegar hann mætir á Sunnuveginn og spyr hvort ég eigi ekki einn kaldan í ísskápnum. Ekki bjó ég svo vel en bauð upp á kaffi en við enduðum á að fá okkur Melroses te en tepokar frá Melrosesfyrirtækinu í Edinborg voru eitt af því fáa sem gladdi Bobby Hutchinson þegar hann lék með FH sumarið 1989.
Helgin hefur farið vel með þessa alþýðuhetju og hann er sáttur við guð og menn. Stelpurnar hans í 3. flokki höfðu unnið Hauka um morguninn, hann var búinn að vinna í allan dag og sinna vel konu og börnum um helgina. Í dag tók hann líka formlega við starfi vallarstjóra á Kaplakrikasvæðinu og hann er fullur tilhlökkunar að feta í fótspor meistara Ragnars Jónssonar.

Manifesto

Ég er ráðinn sem ráðinn í fullt heilsársstarf og á að hafa umsjón með útisvæðinu í Kaplakrika. Mitt hlutverk er að sjá til þess að allt sé í lagi hvort sem það eru grassvæði eða áhöld. Og einnig að áferðin og umgengni sé samboðin þessu mikla mannvirki sem Kaplakrikasvæðið er. Ég renni að mörgu leyti blint í sjóinn en er fullur tilhlökkunar því það eru spennandi tímar framundan hjá félaginu. Svæðið mun ganga í gegnum miklar breytingar næsta árið, fjölmargar byggingar munu rísa og aðrar víkja en það verður gaman að vera í þessum suðupotti.

Ég vil sjá svæðið þrifalegra og grænna, ég vil sjá meiri gróður, ég vil sjá Kaplakrika blómstra. Ég vil gróðursetja manirnar sem umlykja efra svæðið og þekja þær með gróðri sem þarf lágmarksviðhald. Það þarf að skerma svæðið af gagnvart Reykjanesbraut, við getum kallað það “Oparation trefill!” Eins vil ég planta fleiri trjám umhverfis frjálsíþróttavöllinn. Þetta gerir svæðið grænna og veitir meira skjól.

Það þarf að stýra álaginu á grassvæðin betur. Við erum ekki vel sett með grasæfingasvæði og við þurfum að hugsa vel um það sem við höfum. Í framtíðinni þarf að girða Kaplakrikasvæðið af. Það er óþolandi að sjá jafnvel fullorðið fólk vera að leika sér í fótbolta á efra grasinu á kvöldin eftir að æfingum er lokið.

Á veturna reyni ég að sjá til þess að svæðið sé nothæft lungann af árinu með því að skafa af hlaupabrautum og gervigrasinu.

Fimleikafélagið og ég

Ég er náttúrulega alinn upp í miðju FH-hverfinu, á Vitastígnum og Erluhrauni. Ég bjó á algjöru FH-heimili því þarna bjuggu Sædís Arndal frænka mín og Helgi Ragg, leikmenn og þjálfarar hjá félaginu og ég ólst upp við sögur af Vidda Halldórs og Óla Dan og í mínum augum voru þetta bestu leikmenn í heimi.

Ég man furðulega lítið úr minni æsku en ég man fyrstu æfinguna eins og gerst hafi í gær. Þetta var veturinn ’78-’79, ég var 6 ára gamall og æfingin var í íþróttahúsinu við Strandgötu. Ég slysaðist á æfingu með 1 ári eldri strákum og þar sem ég var líka lítill og léttur þá var ég eins og stuðpúði á æfingunni. Ég segi nú ekki að ég hafi verið með tárin í augunum en þetta var skelfileg lífsreynsla. Albert Eymundsson var þjálfarinn og hann er öðlingur eins og FH-ingar vita og einstaklega góður með börn.

Heimsmeistaramótið í knattspyrnu á Spáni 1982 var algjör vakning fyrir mig. Þetta var í fyrsta skipti sem sjónvarpið sýndi leiki frá heimsmeistaramóti og við félagarnir fengum algjört æði. Við vorum öllum stundum í fótbolta á Hörðuvöllum eða Lækjarskólaplaninu. Þetta voru okkar svæði, hvort sem við vorum í fótbolta, elta stelpur eða bara að ræða málin.

Úlfar Daníelsson byrjaði svo að þjálfa okkur í 5. flokki en Úlfar var leikfimiskennarinn okkar í Lækjarskóla einn af þeim sem höfðu mest mótandi áhrif á mína barnæsku. Hann hafði gífurlega áhrif á okkur félagana þó svo að við höfum stundum fengið nóg af honum enda var hann kennarinn okkar og þjálfari í fjöldamörg ár. Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér eins og það hafi komið mikill kraftur inn í starfið með Úlfari. Það fjölgaði mikið í flokknum, hann fékk st