Okkar menn komu einbeittir til leiks í dag og ætluðu sér ekki að láta leikinn frá því á fim. gegn Aftureldingu endurtaka sig þar sem þær voru ekki tilbúnar er flautan gall.  Þó áttu FH-ingar erftitt með að finna taktinn og spilið gekk illa manna á milli.  Það fór svo að Haukar skoruðu fyrsta mark leiksins eftir góða skyndisókn. 
Þegar þarna var komið sögu var stelpunum stillt upp við vegg enda þurfa þær sigur úr 2 síðustu leikjunum til að eiga möguleika á að komast í úrslit.  Hægt og bítandi fundu þær taktinn og fóru að skapa sér alvöru færi með góðu spil.  Það var svo Valgerður Björnsdóttir sem jafnaði leikinn beint úr aukaspyrnu af 30 m. færi.  Staðan í hálfleik 1-1.

Það er gömul saga og ný að FH spili betur í síðari hálfleik.  Á upphafsmínútum síðari hálfleiks var ljóst í hvað stefndi og FH tók öll völd á vellinum.  Síðustu 40 mín. leiksins má segja að Haukar hafi vart séð til sólar sem þó skein skært í dag.  það væri of langt mál að tíunda þann fjölda færa sem stelpurnar fengu (og hugsanleg víti einnig) en náðu ekki ekki að nýta.  Þegar um 8 mín. voru til leiksloka brotnaði þó ísinn og Valgerður laumaði sér inn í teiginn, fékk boltann eftir góðan undirbúning frá Guðrúnu Björg, og Valgerður sendi boltann laust en örugglega í markhornið.  Það var svo frænka Valgerðar, Sigmundína Sara sem lék henni við hlið á miðjunni, sem innsiglaði sigur FH með góðu marki þar sem hún fékk boltann á miðju, bar hann upp völlinn og inní teig og setti smekklega framhjá markverði Hauka. Lokatölur 3-1.

Leikur þessi var vel spilaður af okkar mönnum sem gerðu allt sem fyrir þær var lagt og allt sem þær gátu til að sækja mörkin og stigin sem þær svo nauðsynlega þurftu.  Auk þess sáust í dag góð sóknartilþrif hjá okkar mönnum sem lofa góðu fyrir leiki sumarssins. 

Stúlkurnar eru nú í öðru sæti í riðlinum og eiga einn leik eftir gegn Aftureldingu sem leikinn verður seinnipart vikunar.  Með sigri í þeim leik gætu þær tryggt sér toppsætið.