3. flokkur karla sendir A- og B-lið til leiks. A-liðið hóf leik kl. 9 í morgun gegn IFK Gautaborg en Svíarnir unnu einmitt Gothia-cup á dögunum, sem er fjölmennasta og stærsta fótboltamót í heiminum, þ.a. ljóst er að um firnasterkt lið er um að ræða. FH-ingar virtust hálf hikandi í byrjun og Svíarnir voru sterkari fyrstu mínúturnar. En fljótlega fór skjálftinn af FH-ingum og þeir náðu yfirhöndinni og boltinn gekk vel innan liðsins. Það voru þó Gautaborg sem skoruðu fyrsta markið er þeir unnu boltann á miðsvæðinu, sóttu hratt upp og skoruðu.

FH-ingar héldu áfram að sækja og áttu nokkur góð færi sem fóru forgörðum og staðan í hálfleik var því 0-1 Svíunum í vil. FH-ingar héldu uppteknum hætti í upphafi síðari hálfleiks og uppskáru fljótlega mark er Brynjar Benediktsson skoraði af stuttu færi. Adam var þó ekki lengi í Paradís frekar en fyrri daginn og Svíarnir komust aftur yfir í svo að segja næstu sókn og var þar um afar klaufalegt mark að ræða af okkar hálfu.

Það sem eftir lifði leiks var nánast umsátur um mark Svíanna og öllu tjaldað til. Aron Pálmarson markvörður var nánast farinn að leika sem fremsti maður en Svíarnir virtust ætla að sleppa með skrekkinn allt þar til Björn Daníel Sverrisson jafnaði leikinn þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og úrslitin því 2-2 í hörkuleik.

Fyrsti leikur B-liðsins var gegn Þrótti og var leikið á afar litlum velli svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Vængmaðurinn fljúgandi Ásgeir Gunnarsson opnaði markareikning FH-inga á mótinu er hann fylgdi vel á eftir og skoraði 1-0. Þróttarar jöfnuðu skömmu síðar er ginnungagap myndaðist í miðri FH-vörninni, menn eiga að vita að mörk eru jú flest skoruð um eða inn í vítateig en sjaldnast út á miðjum velli.

Það var þó miðvörðurinn Tryggvi Jónsson, nefndur Tryggvi T-bone í Setbergshverfinu, sem náði aftur forystunni með marki eftir hornspyrnu. Téður Tryggvi hefur reyndar gert víðreist á landsmótum hestamanna í sumar og heillað þar píurnar en nóg um það.
2-1 í hálfleik en í seinni hálfleik skoraði Vignir Þór Bollason þriðja markið með laglegu skoti og markahrókurinn Ísak Bjarki Sigurðsson fann skotskóna að nýju og setti fjórða og síðasta mark leiksins og tryggði góðan 4-1 sigur.

Síðasti leikurinn í dag var hjá A-liðinu gegn Fram. Það var greinilegt að menn voru með hugann við góða frammistöðu morgunsins og héldu að Framarar væru sýnd veiði og gefin. Það fór þó á annan veg. Framarar voru komnir tveimur mörkum yfir eftir 15 mínútur og voru mörkin á tómbóluverði. FH-ingar létu mótlætið fara í taugarnar á sér og einbeitingin virtist fokin út í veður og vind. Einfaldar sendingar fóru forgörðum, enginn talandi var í liðinu og menn voru flestir að spila illa. Eyjólfur hresstist í seinni hálfleik og Brynjar Benediktsson minnkaði muninn 12 mínútum fyrir leikslok. FH-ingar fengu þrjú dauðafæri til að jafna leikinn en feita konan söng án þess að boltinn færi yfir línuna og 1-2 tap staðreynd.

Vonandi læra strákarnir af þessum leik að það kann aldrei góðri lukku að stýra að vera búnir að vinna leikinn áður en komið er inn á völlinn.

Á morgun eru fjölmargir leikir og má jafnvel búast við pistli annað kvöld.