Það var mikið í húfi í leik A-liðanna því bæði lið berjast um að verða meðal tveggja efstu liða en þau komast í úrslit. FH-ingar virtust hálfsofandi í byrjun og Fjölnismenn skoruðu tvö mörk á fyrstu 15 mínútunum og voru þau af ódýrara taginu. Smám saman náðu FH-ingar þó tökum á leiknum og fengu nokkur góð færi til að minnka muninn, fjölmörg skot og hornspyrnur en allt kom fyrir ekki og Fjölnismenn höfðu 0-2 forystu í hálfleik.

FH-ingar komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og voru búnir að jafna leikinn eftir 7 mínútur með tveimur mörkum Brynjars Benediktssonar. FH-ingar virtust ætla að halda áfram og bæta við mörkum en Fjölnismenn svöruðu þremur mínútum síðar með glæsilegu skoti í markið gegn gangi leiksins. Þetta var eins og köld vatnsgusa framan í lið FH en þeir lögðu þó ekki árar í bát og Brynjar fullkomnaði þrennu sína 10 mínútum fyrir leikslok með góðu marki. Síðustu mínúturnar voru æsispennandi, bæði lið hefðu getað bætt við marki en úrslitin urðu 3-3.

Þar misstu FH-ingar af mikilvægum stigum í toppbaráttunni en að sama skapi var mikilvægt að tapa ekki leiknum. Við höfum það enn í hendi okkar að komast í úrslit en til þess þurfum við að öllum líkindum að vinna síðustu þrjá leiki okkar og spila betur en við gerðum í þessum leik.

Leikur B-liðanna var einnig æsispennandi. Í liði FH voru 4 strákar úr 4. flokki þeir Andri Gíslason, Andri Magnússon, Björn Berg og Kristján Gauti Emilsson og stóðu þeir sig allir með mikilli prýði.

Fjölnismenn skoruðu fyrsta mark leiksins og virtust sterkari í byrjun. FH-ingar unnu sig þó vel inní leikinn og Andri Gíslason jafnaði á 25. mínútu með góðu marki og fagnaði með tilþrifum. Stefan Mickael Sverrisson náði svo forystunni fyrir FH á 35. mínútu með stórglæsilegu skoti langt utan að velli og heimamenn leiddu 2-1 í hálfleik.

Fjölnismenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og skoruðu fljótlega tvívegis og voru komnir 2-3 yfir.

FH-ingar lögðu ekki árar í bát og hófu stórskotahríða að Fjölnismarkinu sem bar loks ávöxt fjórum mínútum fyrir leikslok er Kristján Gauti Emilsson skoraði af stuttu færi og tryggði FH eitt stig.