Sæll Valur, nú ertu ári eldri og sumir segja að þú verðir bara betri með hverju árinu sem líður?

Það er rugl, ég er orðinn feitur og hægur og síðan eru alltaf einhver smá meiðsli að hrjá mann þegar maður er kominn yfir þrítugt. Það lítur kannski út fyrir að maður verði betri með hverju ári sem líður en þetta skrifast allt á reynsluna og skynsemina sem kemur með aldrinum.


Hvenær hófust æfingar? Var æft stíft í sumar?

Hættu æfingar einhvern tímann, það fór alveg fram hjá mér. Við erum búnir að æfa mjög grimmt í sumar og komum í mjög góðu standi til leiks. Allir leikmenn liðsins búnir að bæta sig mikið í sumar og samkeppnin í liðinu er það mikil að engin er með öruggt sæti.


Hvaða áherslur eru í leik ykkar FHinga?

Við spilum hratt- mjög hratt. Hröð upphlaup verða okkar vopn í vetur ásamt skynsemi í sóknarleiknum. Við ætlum því að endurvekja aðalsmerki FH liðsins í gegnum tíðina sem er vel útfærð hraðaupphlaup og mikið af þeim. Þegar við náum ekki að klára sókn með hraðaupphlaupi tekur skynsemin við og reynt verður að klára allar sóknir í góðu færi.


Hvernig leggst veturinn í þig?

Hann leggst mjög vel í mig. Allir leikmennirnir búnir að bæta sig mikið í sumar. Mikil samkeppni um allar stöður sem er nauðsynlegt til að leikmenn verði betri og liðið nái árangri. Það verður gaman að spila með þessu liði í vetur og skemmtilegt að fylgjast með úr pöllunum. Það eina sem ég hef áhyggjur af er að Krikinn rúmi ekki allan þann fjölda sem á eftir að koma á leiki okkar í vetur.


Þú hefur nú æft með nokkrum af okkar efnilegustu leikmönnum undanfarin ár, sérðu einhverja sem eiga eftir að ná langt í framtíðinni?

Það eru mjög margir leikmenn í þessum hópi sem geta náð langt í framtíðinni. Þetta eru allt strákar sem eru enn að spila með 2. og 3. flokk félagsins. Þar fyrir utan eru enn fleiri strákar sem geta auðveldlega orðið betri en þeir sem eru núna í meistaraflokkshópnum. Því má ekki gleyma að það er mjög mikill munur á að vera góður í yngri flokkunum og síðan meistaraflokki. Ég hef í gegnum tíðina fylgst með mörgum frábærum strákum í handbolta verða að lélegum leikmönnum í meistaraflokki. Það verður að vera eitthvað meira á bak við leikmanninn en bara “efnilegur”, s.s. mæta á allar æfingar og æfa meira en aðrir, leggja sig alltaf 100% fram, setja sér markmið, viljann til að verða frábær leikmaður og skýrlífi. Sleppum þessu síðasta því ég verð að vera raunsær.


Takk fyrir spjallið, hvernig fer Afturelding – FH á morgun?

Það verða mjög hagstæð úrslit fyrir okkur og það væri gaman að fá góðan stuðning úr pöllunum. Hvet því sem flesta að koma og styðja við bakið á okkur því þetta verður hörku leikur.