Það var fallegur haustdagur í Hafnarfirði á laugardaginn, 14 stiga hiti og hægur vindur. Mafían var mætt snemma á völlinn og var í sínu besta formi. Einbeitingin skein af leikmönnum í upphitun.

Byrjunarlið FH var eftirfarandi:

                                    Daði

Gummi Sæv      Denis Siim      Tommy Nielsen        Hjörtur Logi

                       Baldur Bett     Ásgeir

                                   Tryggvi

Atli Guðna                      Matti                         Allan Dyring

FH-ingar byrjuðu af miklum krafti. Þrívegis fengu þeir upplögð færi á fyrstu 10 mínútunum en Ingvar Kale í Víkingsmarkinu sá við þeim í öll skiptin. Hann kom þó engum vörnum við þegar Allan Dyring skaut föstu skot í nærhornið á 15. mínútu. Dyring sem hefur ekki náð að sýna sínar bestu hliðar fyrr en nú óx ásmegin og  bætti öðru marki við eftir góða fyrirgjöf nýliðans Loga Valgarðssonar á 35. mínútu.

Í seinni hálfleik hleyptu FH-ingar á skeið, eins og vakrir hestar á heimleið. Skynjuðu að endalínan nálgaðist. Langþráður titill í höfn. Víkingar, sem spiluðu háværa graðhestatónlist í klefanum fyrir leik og öskruðu í 5 mínútur áður en þeir héldu inn á völlinn, voru eins og sprungnar blöðrur. Ætlunin var greinilega að detta til baka og vera þéttir, en það mistókst gjörsamlega. Þeir voru strjálir og dekkningin í molum. Maggi Gylfa hafði veðjað hárinu fyrir bikarleikinn og víst er að margur rakarinn hafi klæjað í fingurna að fara höndum um brjillantínbuffið. Hann virtist hinsvegar ekki hafa nein svör á takteininum frekar en andlausir lærisveinar hans.

FH-liðið sem hafði virkað þreytt og jafnvel eilítið áhugalaust síðari hluta sumars hafði öðlast nýtt líf. Kannski var það breytt uppstilling, nýtt blóð. Denis Siim lék einkar vel í miðvarðarstöðunni og Logi Valgarðsson sem er aðeins á 18. ári lék eins og Denis Irwin í vinstri bakverðinum og var með reglulegar áætlunarferðir upp vænginn. Hálandaprinsinn Baldur Bett átti sinn besta leik í sumar, las leikinn frábærlega og hélt miðjunni eins og Össi Tevez. Tryggvi Guðmundsson átti einnig sinn besta leik í sumar í nýrri stöðu, framarlega á miðjunni í „holunni“ milli miðju og senters. Hann togaði í strengina á miðjunni og var mikið í boltanum. Tryggvi hefur mikla orku og þegar hún er rétt stillt eins og á laugardag þá spilar hann vel.