FH-stelpur byrjuðu afar illa og voru komnar 4-0 undir eftir 20 mínútur og staðan í hálfleik var 6-0. Seinni hálfleikur var sem fyrr, miklu betri hjá FH-liðinu og er ég ánægður með að stelpurnar hafa stolt, þrek og karakter til að klára leikina með sæmd í stað þess að vorkenna sér.  Fjölnisstelpur bættu að vísu tveimur mörkum við en áttu þar fyrir utan fá tækifæri. FH-ingum óx ásmegin og voru óheppnar að setja ekki boltann í netið en Fjölnisstelpur stráðu svo salti í sárið með ódýru marki undir lokin og óþarflega stórt tap staðreynd.

Það er ljóst að Fjölnir voru mun betri en við í gær en leiðin að marki FH var alltof greið. Staðsetningar og færslur í varnarleiknum voru ábótavant og þar er verk að vinna. Vissulega hefðum við getað haldið markatölunni eitthvað niðri með því að tjalda fyrir framan vítateiginn með allt liðið en þannig fótbolta viljum við ekki spila.

FH lenti í 4. sæti B-deildar Lengjubikarsins með 6 stig í fjórum leikjum. Framundan er svo Íslandsmótið og er fyrsti leikur 22. maí gegn Aftureldingu í Kaplakrika.

Þess má geta að markvörðurinn Birna Berg Haraldsdóttir lék sinn fyrsta leik með mfl. FH en hún er á fjórtánda ári. Birna stóð svo sannarlega fyrir sínu og sýndi að þar er efnilegur markvörður á ferð.