Það er óhætt að segja að það hafi orðið gríðarleg breyting á kvennaliði FH á innan við tveimur vikum. Í fyrstu umferð N1 deildarinnar voru stelpurnar kjöldregnar í Kaplakrika af Íslandsmeisturum Stjörnunnar en á sunnudaginn rifu stelpurnar sig svo upp og lögðu Akureyri örugglega fyrir norðan. Í gær var komið að því að mæta liðinu sem talið er vera það efnilegasta á landinu í dag, HK.

Í sannleika sagt virðist ekki mikill munur á þessum liðum. FH hafði tögl og haldir allan fyrri hálfleik og leiddi í hálfleik með 10 mörkum gegn 8. Þar var aðalsmerki FH hörku varnarleikur leiddur af Gunni Sveinsdóttir og fínni markvörslu hjá Gabríelu sem spilaðið fárveik í markinu annan leikinn í röð, enda dró verulega af henni þegar á leikinn leið. Fátt annað virtist vera í spilunum þegar leikmenn héldu í hálfleik en að FH myndi sigra leikinn.

En HK stúlkur sættu sig ekki við orðinn hlut. Þær komu mjög beittar í seinni hálfleik og náðu að keyra hraðann upp í leiknum og salla mörkum á FH liðið til að byrja með í seinni hálfleik. Eftir 10 mín leik var staðan orðinn 15 – 18 fyrir HK. Þær höfðu sem sagt gert 10 mörk gegn 5 á þessum kafla. FH liðið var þó ekki af baki dottið og gaf ekkert eftir það sem eftir var af leiknum en komust ekki nær HK lokatölur 23 – 28. FH-ingar voru mjög óhressir með nokkur atriði í dómgæslunni og fannst verulega á sig halla í brottvísunum, sérstaklega fékk stórskyttan Dröfn Sæmundsdóttir að finna fyrir því.

Dröfn átti sannkallaðan stórleik. 9 mörk úr 13 skotum. Dröfn, sem hefur átt í langtíma meiðslum á hné síðustu tvö ár, sýndi öllum sem mættu í Krikann í gær að þar er sannkölluð stórskytta á ferð og líkleg til þess að stimpla sig rækilega inn í landsliðið á þessu tímabili haldi bati hennar áfram.

Gunnur Sveinsóttir sneri einnig á ný í Krikann eftir barneignafrí. Gunnur átti stórleik í vörn og stjórnaði FH vörninni eins og herforingi. Frábær leiðtogi þar á ferð sem eins og við FH-ingar vitum mun láta mikið að sér kveða í vetur þegar hún kemst í sitt besta form.

Flestir leikmenn FH komust mjög vel frá leiknum í gær. Ragnhildur sýndi fína takta í sókninni en á ennþá meira inni. Hildur og Birna mega vera grimmari í sókninni. Systurnar Erla og Guðrún eru hægt og rólega að komast betur í leik FH liðsins auk Ebbu sem verður bara betri með hverjum leik sem líður. Guðmundur þjálfari er greinilega að gera mjög góða hluti með liðið og framfarirnar með hverri viku eru áberandi. Það verður gaman að sjá hvernig liðið mun þróast á næstunni. Stelpurnar munu eflaust koma mörgum á óvart þegar líður á mótið og sérstaklega gæti ákveðnum íþróttafréttamanni á Stöð 2, sem flutti fréttir af því að FH liðið ætti ekki heima í deildinni, brugðið þegar FH liðið fer að reita stigin af svokölluðu “stóru liðunum” í kvennaboltanum.

hægt er að velja besta leikmann FH  á heimasíðu MUGGS