Við FH-ingar komum B, C og D liðum í úrslitaleikina og voru þetta okkar heimaleikir og var leikið í Risanum, flottasta fótboltahúsi á Íslandi.

B liðið hóf fyrst leik og var leikið gegn Keflvíkingum. Töluverður fjöldi áhorfenda mætti á leikinn sem fór rólega af stað. Staðan í hálfleik var 1-1 eftir að FH strákrnir höfðu skorað fyrsta mark leiksins.
Eftir að hafa farið saman yfir málin í hálfleik komu okkar menn gríðarlega sterkir til leiks í seinni hálfleik og þeim tókst þá að láta boltann ganga aðeins betur á milli sín og svo var það í nokkur skipti sem einstaklingsframtakið rak endahnútinn góðar sóknir. Fljótllega náðu strákarnir forystu 2-1 og þegar þeir skoruðu sitt þriðja mark var eins og Keflvíkingar gæfust upp. Í lokin náðum við að skora 3 mörk og sigra 6-1. Frábær leikur en lokatölurnar kannsi full stórar því Keflavíkurliðið er flott fótboltalið.
B-liðið er búið að standa sig frábærlega í mótinu og eru verðugir sigurvegarar. Þeir töpuðu ekki leik á leið sinni til draumalandsins !

D liðið átti næst leik gegn Gróttumönnum. Aftur var fjölmenni á leiknum og var hér um mjög jafnan leik að ræða. Í fyrri hálfleik komumst okkar menn í 2-0 en Gróttumenn náðu að minnka muninn í 2-1. Í seinni hálfleik komust okkar menn í 4-1 og hefðu getað skorað fleiri mörk en svo vildi ekki vera og Gróttumenn náðu á síðustu 5 mínútum leiksins að skora tvö mörk og opna leikinn alveg uppá gátt. En okkar strákar héldu haus og náðu að knýja fram 4-3 sigur og voru þeir að sjálfsögðu gríðarlega sáttir við sigurinn 🙂

C leikurinn var síðastur á dagskrá og er óhætt að segja að það hafi verið ótrúlegur leikur. Eyjamenn voru andstæðingarnir og komu þeir loftleiðina frá Eyjum. Jafnræði var með liðinum í fyrri hálfleik en Eyjamenn nýttu færin sín betur og leiddu leikinn 0-2 í hálfleik. Farið var yfir það í hálfleik að halda áfram að spila boltann og reyna að vera rólegir í færunum því þau voru að koma. Það var því gleðilegt þegar við náðum að minnka muninn með bylmingskoti utan teigs þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum og önnur negla stuttu síðar gerði það að verkum að við jöfnuðum 2-2. Þegar 3 mínútur lifðu leiks skoruðu Eyjamenn sitt þriðja mark og virtust vera að ná í bikarinn. Kvartfæreyingar eru enginr aumingjar og við eigum slíkann mann í okkar liði og hann jafnaði með ótrúlegu skoti þegar 2 mínútur lifðu leiks og úrslit því 3-3 Öll mörk okkar mann skoruð með þrumuskotum. Gripið var á það ráð að framlengja leikinn um 2×5 mínútur og á þriðja liðsfundi í leiknum var lagt upp með að vera þolinmóðir og nýta færin vel.
Eyjamenn komust yfir í framlengingunni 4-3 og enn og aftur þurftu okkar menn að ferðast upp brekku í leiknum (copyright Guðjón Þórðarson). Enn í þriðja sinn í leiknum náðum við að jafna leikinn og þar við sat.
Aftur var framlengt um 2×5 mínútur en í þessari framlengingu var ekki skorað og menn orðnir þreyttir.
Þriðja framlengingin var ákveðin 1×5 mínútur og eftir það átti að hefja vítaspyrnukeppni. En hún var óþörf. Þegar 90 sekúndur lifðu leiks fékk einn okkar mann boltann og lék 3 Eyjamenn sundur og saman með mögnuðu einstaklingsframtaki og lagði svo knöttinn laglega í samskeytin og inn. Mömmurnar grétu og pabbarnir voru stoltir en dómarinn geyspaði. Stuttu seinna var leikurinn flautaður af og ótrúlegum leik lokið.
Þjalfari flokksins hefur horft á og/eða stýrt hundruðum leikja í 5.flokki. Þessi leikur FH og frábærra Eyjamann er einn af 5 flottustu leikjum sem hann hefur séð.

Til hamingju með frábæran dag FH-ingar og eins og Pétur Step segir svo oft: ogÁFRAM FH