Liðsstyrkur fyrir FH

FH barst í dag mikill liðsauki í handboltanum þegar Ásbjörn Friðriksson leikmaður Akureyrar gekk til liðs við félagið og gerði þriggja ára samning.

Ásbjörn sem er leikmaður með 20 ára landsliði Íslands er mjög öflugur leikmaður og er jafnvígur á allar stöður fyrir utan þó að hann sé miðjumaður að upplagi.

Ásbjörn lék vel með liði Akureyrar í vetur og skoraði 70 mörk í N1 deildinni.

Ásbjörn hefur leikið stórt hlutverk með 20 ára landsliðinu undanfarin ár en hann kemur úr afar öflugu unglingastarfi KA og mun án efa efla hið unga og efnilega FH lið á næsta tímabili.

Ásbjörn er annar leikmaðurinn sem gengur til liðs við FH í sumar en áður hafði Hjörtur Hinriksson gengið til liðs við sitt gamla félag.

Búast má við frekari fréttum af leikmannamálum FH á næstu dögum en unnið er að því að styrkja liðið enn frekar.