En nóg um Guðrúnu. FH-stelpur höfðu leikið 6 leiki, unnið tvo og tapað fjórum með minnsta mun í jöfnum leikjum sem höfðu getað fallið með okkur. Það er synd að segja að það sé boðið upp á mörg mörk í leikjum FH en markatalan var 4-6 fyrir leikinn. Traust vörn en sóknarbroddinn hefur vantað. Minnir jafnvel á Roma á velmektarárum Giannnini, Aldair að ógleymdum bakverðinum Nela.

En Jón Þór Brandsson hefur ráð undir rifu hverri. Hann færði Sigríði Guðmundsdóttur Siemsen í fremstu víglínu og Ingibjörgu Pálmadóttur í vörnina. Þessi breyting var mjög til bóta. Ingibjörg og Sara Atladóttir voru sem ókleyfur múr í hjarta varnarinnar og Sigga eins og stingandi býfluga í sókninni. En byrjunarliðið var svona:

                                         Birna Berg

Götu-Guðrún          Sara Atla     Ingibjörg              Hrönn

                           Sigmundína           Bella

Alma (Guðrún Björg 65.)                                        Halla (Linda 80.)

                                             Silja (f) 

                                              Sigga

FH-ingar hófu leikinn mun betur, boltinn gekk ágætlega og sérstaklega náðu þær vinkonur úr Norðurbænum Silja og Sigga vel saman. Silja fékk til að mynda dauðafæri eftir góða sendingu frá Siggu en skallaði naumlega yfir. En á 34. mínútu var ísinn brotinn. Eftir mikinn atgang í vítateig Þróttara náði Silja að snúa að sér varnarmann við endalínu og senda inn í teiginn þar sem Sigga stýrði boltanum af öryggi í netið frá markteig. Mikil kátína greip um sig á varamannabekk FH þar sem Arna Steinsen aðstoðarþjálfari var með forlátann nammipoka sem hún deilir úr þegar FH skorar.

Seinni hálfleikur var ekki alveg jafn góður af FH hálfu og sá fyrri en samt voru stelpurnar með fín tök á leiknum. Sigga átti gott skot rétt yfir og Silja fékk dauðafæri en varnarmaðurinn stjakaði rétt við henni og setti hana úr jafnvægi og færið fór forgörðum.

Undir lokinn sótti Þróttur nokkuð og fengu eitt færi en Birna Berg Haraldsdóttir lokaði markinu en hún var afar örugg í öllum sínum aðgerðum og sá til þess að FH hélt með öll siging þrjú úr Laugardalnum.

All FH-liðið stóð sig feykilega vel og ef stelpurnar halda svona áfram verða mörkin og stigin fleiri.