Karlalið FH náði stórgóðum árangri sem fyrr og náðu 3. sæti í árlegu strandhandboltamóti sem haldið var um helgina í Nauthólsvík. Kvennaliðið stóð sig einnig virkilega vel en áttu við töluvert ramman reip að draga í riðlakeppninni.

Stelpurnar lengi í gang
Stelpurnar áttu þrjá leiki í sínum riðli fyrir hádegið þar sem þær öttu kappi við þrjú karlalið, lið Teflons, Þróttar og Moods of Norway. Fyrsti leikur við Teflon var afar erfiður og liðið átti í raun aldrei möguleika gegn sterku liði sem gerði sér síðan lítið fyrir og fór alla leið í úrslit. Leikurinn tapaðist stórt stelpurnar áttu því miður aldrei séns.

Annar leikurinn gegn Þrótti þótti töluvert betri og töpuðu mjög naumt með tveimur mörkum. Allt annað var að sjá til liðsins. Baráttan var mun meiri og virkilega gaman að sjá stelpurnar taka á strákunum úr Þrótti. Fjöldi misnotaðra dauðafæra var þeim þó að falli að þessu sinni.

Þriðji og síðasti leikur stelpnanna var þeirra besti á mótinu og lið Moods of Norway sá aldrei til sólar. Stelpurnar tóku virkilega vel á því og Hafdís okkar Hinriks fór algjörlega á kostum. Niðurstaðan varð síðan 8 marka sigur stelpnanna. Virkilega vel gert!

Það fór samt á þá leið að stelpurnar urðu í 3. sæti riðilsins og voru naumlega á eftir tveimur efstu sætunum sem gáfu þáttökurétt í 8 liða úrslitum. Engu að síður fínt mót hjá stelpunum.

Strákarnir með gott mót
Strákarnir spiluðu einnig þrjá leiki í riðlakeppninni við kvennalið Hauka, svokallaðar Haukadruslur eins og þær kusu að kalla sig, kvennalið HK og Sólstrandagæjana. Drengirnir okkar áttu ekki í vandræðum með sinn riðil, kjöldrógu kvennaliðin tvö og Sólstrandagæjana með um 10-15 marka mun og allir með skínandi leik.

Málin fóru þó að vandast í 8 liða úrslitum. FH atti þar kappi við lið JB þar sem undirstaðan var gríðarsterkur 83 árgangur að norðan. Eftir venjulegan leiktíma og gríðarspennandi leik var jafnt á öllum tölum. Því varð að fara beint í bráðabana sem virkar þannig að leikmaður úr hvoru liði fer sitt á hvað í hraðaupphlaup með sendingu frá markmanni. Það lið sem klikkar fyrst, tapar leiknum. Svo fór að JB menn misstigu sig eftir um 6 umferðir og sigurinn var okkar þar sem Ólafur nokkur Gústafsson tryggði sætan sigurinn.

Þar með lá leiðin í undanúrslit þar sem við mættum Andra Berg Haraldssyni og félögum í Framhundunum. Framan af voru leikar nokkuð jafnir en með óöguðum leik og einstaklingsframtaki ásamt tiltölulega slakri vörn áttum við ekki breik í Framhundana og urðum að sætta okkur við 6 marka tap. Því er ver og miður en í fyrsta skipti fórum við FHingar ekki alla leið í úrslit. Það er þó bót í máli og prýðis árangur að liðið tók bronsið eftir töluverða yfirburði gegn Stjörnunni þar sem Aron nokkur Pálmarsson fór á kostum í nýju hlutverki en drengurinn ákvað að spreyta sig í markmannsstöðunni.
All in all mjög fínt mót hjá strákunum, bronsið var okkar!