Ísland er komið í úrslitaleikinn í keppni í handbolta karla á Ólympíuleikunum í Peking. Ísland lagði Spán í undanúrslitunum, 36-30.

Ísland er þar með búið að tryggja sér silfurverðlaun á Ólympíuleikunum og spila við Frakka um gullið á sunnudaginn. Frakkar hafa ekki tapað leik til þessa á leikunum en gert eitt jafntefli – gegn Pólverjum sem Ísland vann í fjórðungsúrslitum.

Leikurinn gegn Frökkum hefst klukkan 07.45 á sunnudagsmorgun.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland vinnur til verðlauna á stórmóti í handbolta og í fyrsta sinn sem Ísland vinnur til verðlauna á Ólympíuleikum í liðsíþrótt. Alls verða þetta fjórðu verðlaun Íslands á Ólympíuleikum en ef Ísland vinnur á sunnudagsmorgun verður fyrsta ólympíugull Íslands frá upphafi staðreynd.

Ísland byrjaði glæsilega í leiknum og komst í 5-0 forystu. Spánverjar jöfnuðu í stöðunni 9-9 en Ísland náði aftur frumkvæðinu í leiknum og leiddu í hálfleik, 17-15.

Síðari hálfleikur var glæsilegur. Ísland yfirsteig hverja hindrunina á fætur annarri og seig hægt og rólega fram úr. Spánverjar áttu engin svör, hvorki í vörn né sókn. Alltaf þegar Ísland missti mann út af eða Spánverjar náðu að skora, áttu Íslendingar alltaf svar.

Ísland fór með sex hraðaupphlaup í leiknum og annað eins af dauðafærum á línunni og eftir gegnumbrot. Þrátt fyrir það skoraði Ísland 36 mörk sem eitt og sér er hreint ótrúlegt afrek.

Björgvin Páll varði 22 skot í leiknum og átti frábæran leik. Sverre, Ingimundur og Sigfús stóðu sig frábærlega í vörninni og fengu góðan stuðning frá félögum sínum.

Markaskorunin dreifðist á níu menn í sókninni og segir það allt sem segja þarf. Arnór Atlason náði sér ekki vel á strik í sókninni en þá kom hin skyttan Logi Geirsson – og fór á kostum. Hann skoraði sjö mörk í dag og var markahæstur.

En það er ómögulegt að taka einhvern út enda var þetta sigur liðsheildarinnar. Guðmundur og þjálfarateymi hans eiga gríðarmikið hrós skilið.

Tekið af visir.is