Keppni B liða fór þannig fram að leikið var í einni deild sem innihélt 8 lið. FH liðið spilaði mjög vel í allt sumar og má segja að sóknarleikur hafi verið ofarlega í huga prinsins af Hjallabrautinni og hans hundtrygga aðstoðarmanns.

Fyrir síðasta leik sumarsins var ljóst að jafntefli myndi nægja stúlkunum til sigurs. Öllum leikjunum hafði lokið með sigrum FH-stúlkna en lokaverkefnið var strembið gegn liði HK sem sá möguleika á að stela sigrinum í mótinu með sigri.

HK stelpur byrjuðu með látum í leiknum og náðu tveggja marka forystu strax á upphafsmínútunum. Þórarinn Böðvar lagði kaffibollann frá sér eitt augnablik og bað stúlkur sínar um að halda áfram og vera þolinmóðar á meðan Svavar girti sínar forljótu grænu buxur.. Leikurinn hafði þróast þannig að FH hélt boltanum ágætlega en HK stúlkur höfðu skorað eftir hraðar og snarpar sóknir.
Einn er sá hægri bakvörður í fimleikafélaginu sem skákar Guðmundi Sævarsyni í sóknarhugsun og það er hún Alda sem leysti þá stöðu í þessum leik. Oftar en ekki kom hún sér fyrir framarlega á vellinum og hún minnkaði muninn fyrir hlé með langskoti og staðan því í hálfleik 1-2 fyrir Kópavogsstúlkur.

Hagur þeirra rauðhvítu óx svo í upphafi seinni hálfleiks þegar þær skoruðu sitt þriðja mark. En FH-stelpurnar létu ekki slá sig útaf laginu og með góðum leik náðu þær að setja 5 mörk áður en dómari leiksins flautaði leikinn af. Högna skoraði tvö mörk og þær Sesselja, Elva og Alana skoruðu allar sitt markið hver.

Glæsilegur árangur hjá stúlkunum sem skoruðu hvorki fleiri né færri en 53 mörk í leikjunum 7 og því verðugir Íslandsmeistarar 🙂