Umfjöllun & myndir: FH bikarmeistari í 2. flokki karla eftir sigur á KR

Gangur leiksins
KR 0-2 FH
0-1 Guðni Páll Kristjánsson (’48)
0-2 Brynjar Benediktsson (’87)

FH er bikarmeistari í 2. flokki karla eftir 0-2 sigur á KR á KR-velli í dag. Mörkin FH komu bæði í síðari hálfleik, það síðara undir lok leiksins.

KR-liðið var sterkara liðið á vellinum í kvöld en svo virtist sem FH markið hafi verið lokað og þrátt fyrir dauðafæri vildi boltinn ekki fara inn. Í fjölda skipta skall hurð nærri hælum hjá FH-ingum. KR-ingurinn Einar Már Þórisson komst einn gegn Arnari Magnúsi Róbertssyni markverði FH snemma leiks en Arnar varði og boltinn fór út til Péturs Már Harðarsonar og aftur varði Arnar.

Engu munaði að Einar Már kæmi KR yfir eftir um stundarfjórðung. Dofri Snorrason átti þá frábæra sendingu fyrir markið og Einar Már skallaði í þverslá og yfir markið. KR-ingar áttu einnig mjög hættulegar hornspyrnur í leiknum en FH-ingum tókst að verjast þeim vel.

Davíð Birgisson sem lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki KR á dögunum var duglegur í framlínunni en átti það til að láta það fara aðeins of mikið í skapið á sér þegar dómgæslan féll ekki með honum. Hann átti stórhættulegar hornspyrnur og góðar fyrirgjafir eins og undir lok hálfleiksins þegar hann sendi áTryggva Tómasson en enn einu sinni var Arnar Magnús vel á verði.

Staðan í hálfleik markalaus og sá síðari byrjaði með látum hjá FH-ingum sem náðu forystunni þegar rétt rúmar tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Góð sending kom þá þvert fyrir teiginn á Guðna Pál Kristjánsson á fjær sem skoraði með góðu skoti á markið. Staðan orðin 0-1 fyrir FH.

Þegar um klukkustund var liðin af leiknum ákváðu þjálfarar liðanna að setja trompin sín inná. Þar er um að ræða leikmenn sem eiga fast sæti í liðum sínum í Landsbankadeildinni en hófu leikinn á bekknum enda umferð í Landsbankadeildinni strax á sunnudag.

Hjá FH var það Björn Daníel Sverrisson sem hefur fest sig í sessi sem byrjunarliðsmaður í Landsbankadeildinni sem kom inná á 57. mínútu og mínútu síðar svaraði KR því með því að setja stærðfræðinginn Guðmund Reyni Gunnarsson inná.

Áfram voru það KR-ingar sem voru líklegri til að skora mörkin og eftir um klukkustundar leik bjargaði bakvörðurinn Viktor Guðmundsson á marklínu og setti boltann yfir markið. KR-ingar vildu meina að boltinn hafi farið í hönd hans í leiðinni og heimtuðu vítaspyrnu en Guðmundur Ársæll Guðmundsson var ekki á sama máli og dæmdi horn.

KR-ingar fengu fleiri færi það sem eftir lifði leiks en inn vildi boltinn ekki. Innkoma Guðmundar Reynis frískaði upp á sóknarleikinn hjá liðinu og sjálfur átti hann sínar tilraunir sem gengu ekki upp. Hinum megin á vellinum átti Aron Freyr Eiríksson hættulegasta færið þegar um tíu mínútur voru eftir en gott skot hans fór rétt framhjá markinu.

Það var svo þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum að FH tryggði sér sigur í leiknum. Arnar Magnús markvörður áttu þá langa spyrnu frá marki sínu á fremsta mann, Brynjar Benediktsson sem stakk varnarmenn KR af og afgreiddi boltann snyrtilega framhjá Einari Andra Einarssyni markverði KR. Staðan orðin 0-2 fyrir FH og sigurinn í höfn.

KR átti mun fleiri færi í leiknum en fótboltinn, þessi einfalda íþrótt, gengur út á að skora mörk, það gerðu KR-ingar ekki í kvöld. FH-ingar sátu meira til baka og voru snöggir fram á völlinn og uppskáru tvö mörk leiknum sem tryggðu þeim sigurinn.

KR: Einar Andri Einarsson, Dofri Snorrason, Daníel Kári Snorrason, Einar Bjarni Ómarsson, Egill Jónsson (Guðmundur Reynir Gunnarsson ’59), Eggert Rafn Einarsson, Tryggvi Tómasson, Davíð Birgisson, Pétur Már Harðarson, Aron Ingi Kristinsson, Einar Már Þórisson (Jón Kári Ívarsson ’68).
Ónotaðir varamenn: Daníel Kristinsson, Sturlaugur Haraldsson, Vilhjálmur Darri Einarsson.
<