Þorgeir formaður og Aron í Sportinu í gær

Karlalið FH fær áfram geysimikla athygli og Rúv menn halda áfram að fjalla um liðið í Sportinu sem sýndur er á mánudagskvöldum. Í gær beindist athyglin að Þorgeiri Arnari Jónssyni, formanni handknattleiksdeildar og Aroni Pálmarssyni, leikstjórnanda liðsins.

Þorgeir tjáði sig um stefnubreytingu handknattleiksdeildar eftir sorglegt fall fyrir rúmum tveimur árum síðan, sem lítur nú út fyrir að hafa verið fararheill, þar sem endurnýjun liðsins síðan þá hefur gefið afar góða raun. Í viðtalinu er einnig rætt við Aron Pálmarsson og hann spurður út í góðan árangur liðsins það sem af er, athyglina sem liðið fær í kjölfarið og hvernig staða hans er gagnvart erlendum liðum sem hafa áhuga á að fá hann í sínar raðir.