Í tilefni af mikilvægasta leik mfl liðs FH kvenna í háa herrans tíð, undanúrslitaleiknum gegn KA/Þór sem fram fer á Akureyri á morgun kl 16, náði fh.is tali af Guðmundi Karlssyni og spurði hann spjörunum úr um leikinn á morgun. Mummi er spenntur fyrir leiknum en setur á varnagla þegar rætt er um getu norðanstúlkna og möguleika FH um að komast í Höllina. Heyrum í kappanum…

Jæja Mummi, undanúrslit í bikarkeppninni.  Það er augljóslega mikið í húfi og það hlýtur að vera spenningur í hópnum fyrir þann leik?

Þetta er auðvitað fyrst og fremst gaman en stelpurnar eru auðvitað að spennast upp sem verður að teljast eðlilegt. Já, þetta er stór leikur og stór gulrót á endanum. 

Hvernig verður undirbúningi ykkar háttað fyrir þennan stórleik?

Við höfum nú verið að undirbúa okkur á ýmsan hátt og höfum töluvert verið að vinna í andlegu hliðinni á síðustu vikum og það er að skila sér. Mitt framlag var að vinna upp plagg í 10 skrefum sem miðar að því að hver og einn leikmaður vinni í sjálfum sér innan sem utan vallar. Einnig hafa allir lagt sitt af mörkum móralslega og svo auðvitað er búinn að vera hefðbundinn undirbúningur í sal.  

Hvernig er ástandið á mannskapnum, eru allar heilar og tilbúnar í slaginn?

Já, ástandið er gott nema að Ásdís Sigurðardóttir er ekki leikfær. Allar aðrar tilbúnar í slaginn og markmiðið er klárt.  

Nú hafa FH-stelpurnar vaxið nokkuð í vetur en lið KA/Þórs leikið í 2. deildinni auk þess að vera með mjög ungt lið.  Má ekki ætla að við ættum að eiga greiða leið í úrslitaleikinn eftirsóknarverða?

Auðvelt að svara játandi en staðreyndin er önnur, KA vann Gróttu í 8 liða úrslitum og eru því sýnd veiði en ekki gefin. Þær eru með mjög efnilegar stúlkur og við þurfum að leika vel til að sigra. 

Nú ætlar einhver hópur stuðningsmanna með ykkur norður til að hvetja liðið til dáða.  Það hlýtur að vera ánægjulegt að fá slíkan stuðning alla leið til Akureyrar?

Það er bara algjör snilld og til marks um það frábæra starf sem er verið að vinna í FH í dag. Öll umgjörð er til fyrirmyndar og Muggarar eru ótrúlega duglegir og útsjónarsamir og við ætlum að launa þessu fólki með því að bjóða uppá leik á dúknum í Höllinni 28 febrúar

Heyrst hefur að þú hafir tekið áskorun og munir sitja allsber í rútunni á leiðinni heim ef liðið kemst í úrslit, er þetta satt?

Ekki gleyma því sem ég var að tala um, umgjörðin er til fyrirmyndar með Einar Andra í fararbroddi og auðvitað fljúgum við eins og alvöru liði sæmir.  Hef ekki fengið neina áskorun en bíð spenntur.