Aðstæður í Krikanum voru eins og best verður á kosið, ágætis veður og grasið sjaldan eða aldrei betra m.v. árstíma.

Frá fyrstu mínútu var ljóst að FH var sterkari aðilinn í leiknum.  Stelpurnar sköpuðu sér mikið af færum í fyrri hálfleik og staðan þegar flautað var til leikhlés 2-0. 
Í síðari hálfleik héldu FH engin bönd og 5 mörk litu dagsins ljós.  Markaskorarar FH voru þær Sigrún Ella, sem augljóslega hefur fundið skotskóna eftir erfið meiðsli og gerði þrjú mörk, Jóhanna „Hanna“ Steinþóra Gústavsdóttir með tvö, Alma Gytha með eitt mark en það var einmitt fyrsta mark leiksins og jafnfram fyrsta mark liðsins í mótinu og loks hin unga Aldís Kara Lúðviksdóttir en Aldís sem enn er á yngra ári í 3ja flokki var þarna að koma inn á í sínum fyrsta leik með meistara flokki.

Sigurinn gefur byr í seglin fyrir hið unga lið FH.  Byrjunarlið FH er að stærstum hluta skipað leikmönnum sem eru á 1. eða 2. ári í öðrum flokki.  Það nýtur svo þess að hafa reynsluboltana Guðrún Sveinsdóttur sem jafnframt er fyrirliði og Berglindi Arnardóttur sér til halds og trausts.  Þá er sérstaklega gaman að geta þess að liðið er eingöngu skipað FH-ingum sem farið hafa í gegnum barna og unglingastarf félagsins

FH leikur í B-riðli 1. deildar og setur stefnuna á toppbaráttuna í riðlinum og um leið að komast í úrslitakeppnina þar sem svo allt getur gerst. 

Gróskumikið starf er unnið í umgjörð og utanumhaldi um liðið og er gaman að sjá hversu mikill metnaður er í stelpunum og þeim sem að þeim standa.  Þjálfararnir Jón Þór og Arna Steinsen hafa undirbúið liðið vel og vonandi ná stelpurnar að fylgja góðum leik í dag eftir í næsta leik.  Sá leikur verður á mánudaginn eftir viku gegn nágrönnunum í Haukum en Haukar hafa styrkt lið sit vel fyrir sumarið og ætla sér stóra hluti.

 Við viljum hvetja alla FH-inga til að fylgjast vel með stelpunum og mæta á leiki …sérstaklega í Krikanum …og sýna þeim stuðning.

Halla Marínósdóttir átti fínan leik með FH í dag

Guðrún Björg gerði ítrekaðan usla í vörn Draupnis

Myndin við fréttina er af Sigrúnu Ellu Einarsdóttur sem skoraði þrjú mörk fyrir FH í dag.