Annar af nýju liðsmönnum meistaraflokks karla í handknattleik er jaxl að nafni Jón Heiðar Gunnarsson. Drengur sá kemur frá nágrönnum okkar í Stjörnunni og hefur vakið athygli fyrir mikið baráttuþrek og höfuðgrímu sem hann hefur spilað með eftir óhapp sem varð í leik þegar hann fékk olnboga andstæðings í höfuðið með alvarlegum afleiðingum. Þessi mikli heiðursmaður er hér í viðtali við FH.is eftir að hafa skrifað undir samning við Fimleikafélagið.

Þegar við settumst niður með Jóni Heiðari sagði hann tilfinninguna skrítna að vera genginn í raðir FH þar sem hann hafi keppt svo oft í gegnum tíðina á móti FH en jafnframt segist hann hlakka til og minnist á hversu frábær klúbbur þetta sé. En af hverju FH?
„Hér er frábært uppbyggingastarf og það er heiður að fá að taka þátt í því. Hér er búið að standa vel að málum í nokkur ár og byggt hefur verið upp skemmtilegt lið, það er númer 1 2 og 3. Svo er náttúrulega frábær umgjörð hér og handboltastemmningin hér í Hafnarfirðinum er frábær og alveg til fyrirmyndar,“ sagði kappinn.

Jón Heiðar hefur leikið með HK, ÍR og Stjörnunni en þessi 28 ára gamli línumaður og varnarjaxl hefur verið fyrirliði hjá bæði HK og ÍR og því mikill leiðtogi. Aðspurður um sitt hlutverk í FH-liðinu sagði Jón Heiðar:
 „Góð spurning. Ég vona bara að maður geti notað reynsluna sem maður býr að til að hjálpa ungu strákunum að taka næstu skref, gefa af sér til liðsins og taka þetta á þessu gamla góða, stemmningu, baráttu og leikgleði.“

Hann segir það ekki nýtt hlutverk fyrir sig að vera einn af eldri leikmönnum þeirra liða sem hann hefur spilað hjá því hjá ÍR upplifði hann svipað, þ.e. vera einn af eldri leikmönnum liðsins. En sér hann sig í leiðtogahlutverki hjá liðinu næsta vetur?
„Klárlega, og þá sérstaklega í vörninni, þar líður mér best.“

Eins og áður hefur komið fram spilar Jón Heiðar með höfuðgrímu eftir óhapp í leik. Hvernig er heilsan á honum í dag?
„Ég er mjög góður núna. Það sem bjargaði mér á sínum tíma var höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð hjá móður Hjörleifs Þórðarsonar FH-ings. Hún gerði kraftaverk og eftir þá meðferð hefur þetta ekkert plagað mig. Ég mun samt eftir sem áður spila með höfuðgrímuna, kannski spurning um að skipta henni út, fá sér jafnvel eina bleika. Nei en að öllu gamni slepptu þá fer ég ekki inn á völlinn öðruvísi en með hlífina eftir að hafa upplifað hversu miklar afleiðingar eitt högg getur haft.“

Óhjákvæmilegt er að spyrja Jón Heiðar út í næsta tímabil þar sem 3 máttarstólpar frá því í fyrra verða ekki næsta vetur. Aron Pálmarsson hefur sem kunnugt er gert samning við þýska liðið Kiel og þeir Magnús Sigmundsson markmaður og Guðmundur Pedersen hornamaður hafa ákveðið að leggja skóna á hilluna. Jón Heiðar segist sjá fyrir sér að liðsheildin verði sterk næsta vetur þar sem sóknarleikurinn snúist minna um að einn maður skori ákveðið mikið af mörkum. Þá segir hann blönduna góða í liðinu, nokkrir reynslumiklir menn eins og hann sjálfur auk Bjarna Fritzonar og Pálmars Péturssonar séu í liðinu með öllum þeim ungu og spræku leikmönnum sem félagið á.
 „Þetta er hin fullkomna formúla að árangri,“ segir hann sposkur á svip.<