Liðið sumar var einkar ánægjulegt fyrir FH en lið mfl. kvenna tryggði sér sæti í efstu deild að ári.  Árangurinn er sérstaklega ánægjulegur í ljósi þess að liðið er að mestu leiti skipað lekmönnum sem komið hafa upp hjá félaginu á undanförnum árum.  En betur má ef duga skal því yfirlýst markmið er að koma liðinu í röð þeirra bestu á næstu árum.  Það er því ljóst að styrkja þarf hið unga og efnilega lið FH með reynslu og styrk sem fæst með sterkum leikmönnum sem leikið hafa meðal þeirra bestu. 

Fyrsta skrefið var stigið á dögunum þegar gengið var frá áframhaldandi samningi við þau Jón Þór og Örnu Steinsen sem stýrt hafa liðinu á undanförnum tveimur árum.  Auk þess hafa þau sér til halds og trausts þau Sivíu Úlfarsdóttur frjálsíþróttamann og Einar Þorvarðarson, skólasálfræðing og markmannsþjálfara.  Stöðugleiki er mikilvægur og það að tryggja lykilfólk til áframhaldandi starfa er stór liður í því að sigla skútunni í sigurhöfn.

Sem fyrr segir er lið einkar ungt að árum og uppistaðan okkar stelpur og engin breyting verður þar á.  Áfram verður stólað á okkar fólk enda hefur það sýnt sig að FH-ingar eru bestu leikmennirnir fyrir FH.   Hinsvegar er ljóst að reynslu og þyngd skortir fyrir framhaldið.  Frá því að móti lauk hefur verið lagt á ráðin með hvernig styrkja megi liðið og nú þegar hefur verið gengið frá samningu við tvo leikmenn.  Silja þórðardóttir sem verið hefur í námi í BNA að undanförnu mun snúa aftur til liðsins og er mikill fengur í því.  Silja hefur leikið um 100 leiki í mfl. með FH og Breiðablik og á að baki 18 leiki með yngri landsliðum Íslands  Auk þess var nú fyrir skemmstu gengið frá samningu við Elsu Petru Björnsdóttur sem leikið hefur með Fylki.  Elsa er tvítug og hefur spilað um 50 leiki í mfl. og 2 leiki með yngri landsliðum.   Við FH-ingar bjóðum Silju velkomna til baka og um leið bjóðum við Elsu velkomna í félagið.