FH.is er byrjað að hita upp fyrir stórleik FH og Hauka í N1-deild karla á fimmtudag, sannkallaður Hafnarfjarðarslagur og sá fjórði á tímabilinu.

FH.is fékk hinn þjóðkunna blaðamann Fréttablaðsins, Henry Birgi Gunnarsson, til að spá í spilin.

Hvernig líst þér á þennan stórleik í N1-deild karla á fimmtudag?
Henry: Mér líst frábærlega á hann. Leikir þessara liða í handboltanum eru með eindæmum vel heppnaðir og einfaldlega stórviðburðir í íslensku íþróttalífi. Spennan í síðustu leikjum liðanna hefur verið slík að liðin mega hafa sig alla við að standa hreinlega undir væntingum sem eru þegar orðnar mjög háar.

Hverjir eru helstu styrkleikar Haukar og veikleikar Hauka?
Henry: Haukar spila geysiöflugan varnarleik og þann besta á landinu þegar vel lætur. Liðið hefur síðan einn besta markvörð landsins þar fyrir aftan. Svo eru þeir með frábærar skyttur í Begga og Bjögga. Haukarnir eru fyrst og fremst veikir á hægri vængnum en hefur samt tekist að leysa það ótrúlega vel oft á tíðum.

Hvað helduru að FH-ingarnir geta nýtt sér? Helduru að stemningin hafi eitthvað að segja?
Henry: FH-ingarnir verða að reyna að klippa Begga og Bjögga út úr leiknum. Það þýðir ekki að gefa þeim flugbraut heldur verður að stíga vel út í þá. Einnig þarf FH að spila hraðan bolta, keyra á Haukana og ekki gefa þeim tíma til þess að stilla upp í vörninni. Svo verður Palli að halda sér í markinu. Stemningin hefur að sjálfsögðu mikið að segja og það lið sem hefur betur í stúkunni hefur ákveðið forskot.

Þú sem þraulreyndur grillari, ef þú myndir gera þér leið í Krikann.. Hvern myndirðu vilja sjá á grillinu?
Henry: Helst myndi ég vilja sjá sjálfan mig enda er ég besti grillari landsins. Það gengur víst ekki upp að þessu sinni. Ég missti af Heimi Guðjóns síðast og vil endilega sjá hann aftur á grillinu. Hann er alltaf að lýsa því yfir hvað hann sé öflugur á grillinu en hefur ekki enn leyft mér að prófa. Gruna að það sé ekki að ástæðulausu. Ef hann kemst ekki þá vil ég sjá Óla Jóh mæta með grillspaðann í annarri og hamarinn í hinni. Það væri Kodak-moment.