Á morgun, þriðjudaginn 27. apríl kl. 20:00, mætast lið FH og Hauka í 4. umferð Lengjubikars kvenna á Ásvöllum.  Sem kunnugt er unnu bæðin liðin sér þáttökurétt í Úrvalsdeild á síðasta ári.

Fyrir leikinn er FH með fullt hús stiga, með 8 mörk í plús eftir sigra á Aftureldingu og Suðurnesjaliðunum: Grindavík og Keflavík.  Lið Hauka er í 3 sæti með 6 stig og 6 mörk í plús eftir sigur á Keflavík og Aftureldingu en tap gegn Grindavík. Bæði liðin hafa aðeins fengið á sig 1 mark til þessa.

Lið FH leggur nú lokahönd á undirbúning fyrir Pepsi-deildina sem hefst 13. maí þegar FH heimsækir KR í Frostaskjólið.  Liðið kemur ágætlega undan vetri og hefur staðið sig þokkalega í undirbúningsmótum og æfingaleikjum.  Stelpurnar eru nýkomnar úr æfingaferð til Portúgal sem þótti takast vel.  Liðið var þó fyrir áfalli þegar miðjumaðurinn Silja Þórðardóttir meiddist á liðböndum, einmitt í æfingaleik gegn Haukum.  Áður hafði Joana Rita, annar miðjumaður FH, slitið krossbönd.

Mikið hefur verið ritað og rætt um Handboltaleiki félaganna í vetur sem hafa verið mikil skemmtun og umgjörð félaganna til sóma.  Engu minna hefur verið rætt um fyrirhugaða leiki liðanna í fótboltanum á komandi sumri en þetta er í fyrsta skipti sem bæði lið eiga lið í úrvalsdeild karla og kvenna.

FH-ingar eru hvattir til að mæta á leikinn og hita upp fyrir sumarið.