FH-ingar fjölmenntu í Kópavoginn nú undir kvöld þegar lið FH lék gegn HK, enda mikið í húfi fyrir FH-liðið. FH-ingar urðu að vinna til að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni og þurftu þar að auki að treysta á Hauka, sem léku gegn Akureyri á sama tíma. Það reyndist þó ekki vera raunhæfur möguleiki, eins og við fengum að lokum að kynnast, þar sem að þeir kusu að hvíla lykilmenn sína.


Össi var öflugur í líði FH í kvöld

Fyrri hálfleikur
FH-ingar mættu einbeittir og samstilltir til leiks. Liðið lék með hjartanu, barðist vel fyrir sínu og hafði í kjölfarið alltaf yfirhöndina. FH-ingar voru yfirleitt með 1-3ja marka forskot, og það vel verðskuldað. Baráttan var þó gríðarlega mikil mestallan tímann og HK-ingar voru á tímabili nálægt því að jafna metin. En því náðu þeir þó ekki og FH-ingar leiddu í hálfleik, 10-12. Atkvæðamestur FH-inga var Ólafur Gústafsson með 5 mörk, en drengurinn virkaði óstöðvandi á köflum.

Seinni hálfleikur
HK-ingar mættu ákveðnir inn í seinni hálfleikinn og söxuðu á forskot FH-inga, náðu að lokum að jafna stöðuna í 15-15. En þá skildu leiðir, allavega um stundarsakir – FH-ingar keyrðu á HK-ingana og náðu muninum upp í 4 mörk, 18-22. Það entist þó ekki lengi, með smá hjálp frá dómurum leiksins náðu HK-ingar að minnka muninn niður í eitt mark þegar einungis 9 mínútur voru eftir af leiknum. Margir vafasamir dómar féllu gegn okkar mönnum sem að olli því að HK-ingar komust á bragðið, spennandi lokamínútur voru framundan.


Það fer ekki á milli mála að FH-ingar eiga bestu stuðningsmenn landsins

En FH-ingar voru ekki á þeim buxunum að hætta. Liðið lék glimrandi vel síðustu 8 mínútur leiksins, bæði í vörn og sókn, og náðu með góðum stuðningi áhorfenda að innsigla sætan 3ja marka sigur, 25-22. Var strákunum vel fagnað í leikslok enda engin ástæða til annars, þrátt fyrir ákveðin vonbrigði vegna úrslitakeppninnar. Góður endir á misgóðu Íslandsmóti.

FH-ingar geta dregið lærdóm af þessu tímabili. Mæti liðið einbeitt og ákveðið til leiks getur það unnið hvaða lið sem er í deildinni, á því leikur enginn vafi. Leiki liðið með hangandi hendi er voðinn vís, og því fengum við að kynnast oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á þessu tímabili. Óstöðugleikinn reyndist liðinu dýrkeyptur að lokum.

Setja má spurningamerki við íþróttamennsku hins liðsins í Firðinum í kvöld, en aðalatriðið er að hver er sinnar gæfu smiður, ekki er hægt að treysta á önnur lið í þessum efnum.  FH hefði getað tryggt sér sæti í úrslitakeppninni án vandræða og án þess að þurfa að treysta á frammistöðu annarra liða, getan er svo sannarlega fyrir hendi. En svo fór ekki og FH-ingar sitja eftir með sárt ennið annað árið í röð.

Stuðningurinn við liðið í kvöld var frábær að vanda. FH-ingar fjölmenntu í Kópavoginn og létu vel í sér heyra og sýndu það í eitt skipti fyrir öll að FH á bestu stuðningsmenn landsins. Gott veganesti fyrir sumarið.

Nú er tímabilinu lokið hjá báðum meistaraflokkunum. Uppgjör liðanna tveggja birtist á vefnum von bráðar.

Áfram FH!