Á morgun fer fram mikilvægasti leikur FH í mörg ár. Leikurinn sem að um ræðir er viðureign FH og HK og kemur til með að ráða úrslitum um það hvort það verður FH eða Akureyri sem að fer ásamt Haukum, HK og Val í úrslitakeppnina. FH-ingar verða að vinna leikinn til að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni, en þar að auki verða Akureyringar að gera jafntefli eða tapa gegn Haukum.


FH-ingar heimsækja Kópavoginn á morgun og leika gegn heimamönnum í HK

HK
Handknattleiksfélag Kópavogs, betur þekkt sem HK, situr í 3. sæti N1-deildarinnar með 24 stig og er með tryggt sæti í úrslitakeppninni. HK-ingar hafa unnið 11 leiki, gert 2 jafntefli en tapað 7 leikjum.

Ljóst er að leikurinn verður erfiður fyrir lið FH. HK-ingar hafa vissulega tryggt sér sæti í úrslitakeppninni en eru vafalaust ákveðnir í að ljúka deildarkeppninni með sigri, FH-ingar fá ekkert gefins.

Valdimar Fannar Þórsson er algjör lykilmaður í liði HK. Vilji FH-ingar sigra í leiknum verða þeir að passa Valdimar sérstaklega vel, enda afbragðsgóður skotmaður og lunkinn í því að leggja upp fyrir samherja. Þá verða FH-ingar að velja færi sín betur heldur en gegn Val, því að í marki HK stendur Norðanmaðurinn Sveinbjörn Pétursson, sem að er gríðarlega öflugur komist hann í gang.

Síðasti leikur HK-inga var gegn Akureyri á mánudaginn var. Þar unnu þeir góðan sigur á útivelli, 24-22, og tryggðu sæti sitt í úrslitakeppninni.

Síðasti leikur liðanna
FH og HK mættust síðast í Kaplakrika þann 3. desember síðastliðinn. Þá unnu HK-ingar góðan 4ra marka sigur, 24-28. FH-ingar hafa því harma að hefna þegar liðin mætast á morgun. Síðasti leikur liðanna þar á undan var í Digranesi í fyrstu umferð deildarkeppninnar þann 8. október. Þá skildu liðin jöfn, 28-28.

FH
FH-ingar sitja í 5. sæti deildarinnar með 21 stig, 1 stigi á eftir Akureyri sem að er í 4. sæti deildarinnar. Liðið hefur unnið 10 leiki, gert 1 jafntefli en tapað 9 leikjum.

FH-ingar fara inn í þennan leik vitandi það að þeir verða að vinna, auk þess sem að þeir þurfa að treysta á úrslit í öðrum leikjum til að komast áfram. Eftir góðan sigur á Fram 31. mars töpuðu FH-ingar á heimavelli gegn Val, 20-25, og komu sér þar með í erfiða stöðu fyrir leik morgundagsins. Liðsmenn FH geta þó farið inn í leikinn með því hugarfari að þeir hafi engu að tapa, sem að hefur vonandi jákvæð áhrif á þá.

Staðan er einfaldlega sú að FH-ingar verða að vinna. Nái liðið upp almennilegum varnarleik og góðum sóknarleik ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu, en detti menn niður í kæruleysi er alveg eins hægt að gefa leikinn strax. Strákarnir verða að mæta 100% tilbúnir til leiks ætli þeir sér að ná sigri út úr þessum leik.

En ætli FH-ingar sér að sigra í leiknum verður stuðningurinn að vera í lagi. Með öðrum orðum, hann verður að vera jafn góður og hann var í leikjunum á móti Fram og Val. Vart þarf að rifja upp hve góður stuðningur við liðið var í þeim leikjum, FH-ingar á pöllunum öskruðu og klöppuðu allan leikinn sama hver staðan var. Sýndu þeir fram á það sem að hefur verið á allra vitorði um langt skeið: FH á bestu stuðningsmenn landsins og þótt víðar væri leitað. Það er því um að gera fy