Sigrún Ella í leik í Krikanum í fyrra.

Það voru ágætar aðstæður og góð umgjörð í kringum leik KR og FH í Frostaskjólinu í gærdag.

Leikurinn var heldur bragðdaufur í fyrri hálfleik og jafnræði með liðunum.  Aldís Kara var skeinuhætt í sókn FH og skapaði usla í vörn KR.  KR skoraði mark sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.  Staðan í hálfleik 0-0 og leikurinn opinn.

Síðari hálfleikur hófst með látum og KR skoraði tvö mörk með stuttu millibili.  Þar voru að verki þær Kristín Sverrisdóttir með skalla og Katrín Ásbjörnsdóttir með hnitmiðuðu skoti.  Bæði mörkin komu eftir fyrirgjöf hægra megin við mark FH. Eftir það fengu bæði lið tækifæri en hvorugu tókst að skora. Helst var það Sigrún Ella sem náði að ógna vörn KR með góðum rispum upp hægri kantinn.  Lokatölur 2-0.

Sigur KR var sanngjarn sé miðað við það að þær skoruðu tvö mörk og FH ekkert.  FH voru satt best að segja ekki mjög líklegar til að skora.  Til þess hefði þurft meiri ákveðni í sóknarmönnum og betri stuðning frá miðjunni.  Þá var vörn FH mistæk í leiknum, lág full aftarlega og sóknarmenn KR fengu full mikið pláss og tíma með boltann.

Aldís Kara og Sigrún Ella áttu ágætis leik fyrir FH en annars var liðið „á pari“.

Nú er fyrsti leikur að baki og stelpurnar búnar að losa sig við „skjálftann“.  Framundan er stórt verkefni en þá mætir liðið Íslandsmeisturum síðast liðina fjögura ára, Val.  Leikurinn fer fram í Krikanum á þriðjudaginn kl. 19:15.