Að loknu tímabilinu er FH fallið úr Pepsi-deild kvenna eftir  árs veru meðal þeirra bestu. Á því augnabliki er vert að líta um öxl en mikilvægast  er að horfa fram á veginn.

Segja má að tímabilið sé litað af skini og skúrum. Fyrir mót var útlitið gott og FH vann í fyrsta skipti B-keppni lengjubikarsins. Liðið hafði sjálfstraust og leit vel út fyrir átökin sem voru í vændum. En blikur voru á lofti. Lykilmenn meiddust skömmu fyrir mót og voru lengi að ná fyrra hreysti. Afleiðingin varð sú að helstu veikleikar liðsins komu í ljós. Lítil breidd og reynsluleysi varð þess valdandi að liðinu gekk afar illa í fyrri umferð mótsins. Aðeins þrjú stig komu í hús og ekkert nema fall blasti við. Þegar líða tók á mótið og sérstaklega í síðari umferðinni fækkaði á meiðslalistanum og liðið tók að spila betur. Jafnframt jókst reynsla yngri leikmanna og leikur þeirra varð stöðugri. Í síðari umferðinni fóru stelpurnar að ná góðum úrslitum og undir það síðasta var gott útlit með að liðið næði að halda sæti sínu í deildinni. Fyrir loka leikinn var liðið komið með 14 stig og góður möguleiki til staðar þar sem helstu keppinautar áttu erfiða leiki fyrir höndum Það fór hins vegar svo að tækifærið gekk FH úr greipum í lokaleiknum og liðið er nú fallið úr deildinni.

Á þessum tímapunkti er rétt að átta sig á því að þótt niðurstaðan sé vonbrigði er rekstur knattspyrnuliða ferðalag með fyrirheit. Þannig er 1. deildin að ári einungis áningastaður á löngu ferðalagi sem að mun leiða liðið í hæstu hæðir. Fall úr deildinni er engin dómur yfir starfinu. Þjálfarar og leikmenn taka dýrmæta reynslu út úr mótinu og horfa fram á veginn. FH stefnir á toppinn og engin breyting verður á því þótt að markmiðinu seinki um fáeina mánuði.

Fjöldi efnilegra leikmanna hafa komið í upp í gegn um yngri flokka starf félagsins á undanförnum árum. Sumir þeirra hafa þegar leikið með mfl. og aðrir farnir að banka á dyrnar. Fyrir eru reynslumeiri stúlkur sem mikilvægt er að halda í. Bestu liðin hafa hæfilega blöndu af reynslu og „ungæði“ og gildir þá einu hvert er litið.

Leikmönnum og þjálfurum ber að þakka fyrir þeirra framlag í sumar. Oft á tíðum sýndi liðið frábæra takta og sannaði að það er á réttri leið. Þá er einnig vert að hrósa þeim sem haldið hafa utan um liðið og boðið upp á frábæra umgjörð utan um heimaleiki. Þar er allt eins og best verður og vonandi verður framhald á því.

Framundan eru spennandi tímar og gaman verður að fylgjast með liðinu freista þess að komast aftur í efstu deild. Verkefnið er ærið en gæðin, umgjörðin og aðstaðan eru svo sannarlega til staðar í FH.

Áfram FH