,,Mér líst vel á að Íslandsmótið sé að byrja.  Undirbúningur er búinn að ganga ágætlega þrátt fyrir meiðslavandamál hjá nokkrum leikmönnum, þ.a. liðið er tilbúið að byrja mótið þrátt fyrir að séum ekki með alla leikmenn innan borðs vegna meiðslna.  Afturelding er með gott lið, sterka vörn og spila tiltölulega agaðan handbolta.  Við þurfum að sýna þolinmæði og aga í leik okkar til að sigra þá.  Styrkleikar eiga að liggja í góðum varnarleik og markvörslu.  Sóknarleikurinn hefur líka verið að slípast hjá okkur þannig að ég vona að getum spilað hraðan bolta á móti okkar andstæðingum í vetur,“ sagði Kristján Arason, þjálfari FH í handknattleik, aðspurður hvernig honum litist á fyrsta leik vetrarins í handboltanum.

 

Hann er, eins og flestir handboltaunnendur vita, í dag í Krikanum gegn Aftureldingu. Leikurinn sjálfur hefst 19.30 – en burger og tónlist hefst klukkustund fyrr.

 

,,Við leggjum áherslu á okkar styrkleika og ef við náum þeim fram þá eigum við að vinna Aftureldingu á okkar heimavelli.“

 

Kristján var sammála blaðamanni aðspurður hvort FH vantaði ekki stöðuleika í undanförnum leikjum á undirbúningstímabilinu – þótt deild og undirbúningsmót sé alls ekki það sama: ,,FH liðið hefur sýnt marga góða leiki á undirbúningstímabilinu en síðan dottið niður í slaka leiki inn á milli.  Það er okkar að fækka slakari leikjunum og ná meiri stöðugleika í leik okkar.  Við höfum verið að einbeita okkur að minnka þessar sveiflur innan leikja og mér finnst það allt vera á réttri leið.“

 

Að lokum vildi Kristján koma eftirfarandi skilaboðum áleiðis: ,,FH-ingar hafa sýnt það að þegar þeir fjölmenna í Kaplakrikann þá er það völlur sem erfitt er heim að sækja og því bið ég alla FH inga að fjölmenna á leiki okkar og þá verður gaman í Krikanum.  Styðjið við strákana í blíðu og stríðu,“ sagði Kristján Arason, handknattleiksþjálfari, við FH.is að lokum.

– Anton Ingi Leifsson.