Sigurgöngu FH í N1-deild karla lauk í dag þegar þeir lutu í gólf gegn HK-ingum í Digranesinu. Fyrirfram mátti búast við erfiðum leik, enda HK-ingar með sterkt lið sem tapar sjaldan á heimavelli. Leikurinn var kaflaskiptur með eindæmum, og litaðist á köflum af ansi skrautlegri frammistöðu dómara leiksins.

Leikurinn hófst sæmilega hjá FH-ingum og var margt líkt með fyrri leikjum liðsins í deildinni, en þá hafa upphafsmínúturnar gjarnan verið stál í stál. HK-ingar virkuðu þó ákveðnari, höfðu fyrir því að spila vörn og náðu því forskoti hægt og bítandi. Varnarleikur FH-inga var að sama skapi ansi hreint slappur og baráttugleðin sem var til staðar í fyrstu þremur leikjum mótsins virtist vera á bak og burt. Það veit aldrei á gott, sérstaklega ekki gegn jafn baráttuglöðu liði og HK er.

Strákarnir náðu þó lengi vel að halda sér inni í leiknum í fyrri hálfleik, og voru gjarnan einungis 1-2 mörkum undir. Var það ef til vill ásættanlegt miðað við það hvernig leikurinn þróaðist – FH-ingar voru ekki að spila sinn besta leik og þurftu þar að auki að kljást við dómara leiksins, sem virtust á tímabili halda með heimamönnum. En það þýðir víst lítið að kvarta.

Eins og áður segir voru FH-ingar ekkert allt of langt frá því að jafna leikinn, en þó vantaði alltaf herslumuninn. FH-ingar þurftu t.a.m. að leika tveimur færri síðustu mínútur hálfleiksins, en höfðu þar áður náð að laga stöðu leiksins heilmikið. Staðan í hálfleik var 15-12 fyrir HK.

Staðan breyttist til hins verra í seinni hálfleik fyrir FH-inga. HK-ingar voru mun sterkari strax í byrjun og virtust ansi hreint líklegir til að halda uppteknum hætti. Eftir kortersleik í seinni hálfleik voru HK-ingar komnir með 7 marka forystu, sem þeir virtust ekki vera líklegir til að láta af hendi.

Sú var þó ekki raunin. FH-ingar byrjuðu allt í einu að spila handbolta og náðu á stuttum tíma að minnka muninn niður í 3 mörk þegar 5 mínútur voru svo eftir og svo í 2 mörk þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Meðbyr með okkar mönnum, en þeim gafst þó aldrei tækifæri til að jafna leikinn eða vinna hann þökk sé endalausum töfum HK-inga og samþykki dómara leiksins á þeim töfum. Leiknum lauk því með sigri HK-inga, 35-32.

Fátt er hægt að segja um þennan leik. FH-ingar hefðu getað gert miklu betur, en þá skorti einbeitingu og baráttu til að sækja sigurinn gegn sterku HK-liði sem spilaði vel í dag. Varnarleikur liðsins lengi vel var ekki til eftirbreytni og að sama skapi vantaði flæði í sóknarleikinn. Við getum þó huggað okkur við það að mótið er bara rétt svo byrjað og nóg eftir af leikjum til að liðið geti sýnt sitt rétta andlit.

Markahæstur í liði FH að þessu sinni var Ásbjörn Friðriksson, en hann skoraði 9 mörk. Næstmarkahæstur var Logi Geirsson með 6 mörk.

Nú tekur við landsleikjapása, en næsta verkefni eftir það er leikur gegn Fram í Krikanum. Sá leikur er þann 4. nóvember. Meira um leikinn síðar.

Við erum FH!