Fyrsti leikur eftir landsleikjahlé var leikinn í kvöld þegar Framarar komu í Krikann og léku gegn heimamönnum í FH. Fyrirfram mátti búast við erfiðum leik, enda Framarar með öflugt lið sem var fullt sjálfstrausts eftir ágætis byrjun á tímabilinu og stóran sigur gegn Val í síðasta leik fyrir landsleikjahlé. FH-ingar höfðu hins vegar tapað sínum síðasta leik fyrir landsleikjahlé og því var spurning hvernig þeir myndu mæta til leiks.

Ekki byrjaði leikurinn vel fyrir FH-inga. Framarar virkuðu mun ákveðnari í öllum sínum aðgerðum á meðan FH-ingar virkuðu hálf rænulausir. Framarar tóku því fljótt yfirhöndina í leiknum og var það að öllu leyti verðskuldað. Helsi dragbítur FH-inga á þessum kafla var slakur varnarleikur, en oft á tíðum virtust Framarar eiga ansi auðvelt með að komast í gegn. Það olli því að markvarslan hrökk ekki í gang, og að sama skapi gekk fátt upp í sóknarleiknum.

Þrátt fyrir þessa erfiðu byrjun var leikurinn jafnari en hann gæti hafa verið, en miðað við spilamennsku FH-inga á köflum hefði munurinn á liðunum oft getað verið meiri en raun bar vitni. Mest náðu Framarar 4ra marka forskoti, sem FH-ingar náðu þó að minnka fyrir hlé. Staðan í hálfleik var 15-17 Fram í vil – verðskulduð staða og umbóta þörf hjá FH-ingum.

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri, Framarar réðu ferðinni en FH-ingar tóku reglulega rispur og komu þannig í veg fyrir það að Framarar sigldu allt of langt fram úr. Sigur Framara var því aldrei í hættu, lokatölur voru 38:33 Fram í vil.

Vart þarf að tala um vonbrigðin sem fylgja tveimur tapleikjum í röð, sér í lagi leikjum sem verða að vinnast ætli liðið sér að ná árangri. Vitað var að leikurinn yrði erfiður, ekki síst vegna fjarveru Loga Geirssonar, og að FH-ingar yrðu að spila vel til að ná sigri – þeir þyrftu að ná upp góðum varnarleik og öguðum sóknarleik. Hvorugt var til staðar í kvöld og þá sérstaklega varnarleikurinn, enda fékk liðið á sig 38 mörk þrátt fyrir 19 varin skot hjá Pálmari og Danna í kvöld. Það eitt sýnir fram á hversu slappur varnarleikur liðsins var. Á móti skorar liðið 33 mörk, sem að í sjálfu sér er alls ekki lítið. En eins og hefur margoft verið sannað þá vinnur vörn leiki, og í þessum leik var hún ekki til staðar.

En það eru sem betur fer ljósir punktar eftir leiki sem þessa. Sá stærsti er sá að margt getur breyst til hins betra, mótið er enn ungt og strákunum koma til með að gefast tækifæri til að bæta upp fyrir slakan leik í kvöld. Þar að auki eigum við sterka menn inni, Ólafur Gústafsson lék í kvöld sinn fyrsta leik eftir meiðsli og skoraði hann 3 mörk – flott framtak hjá drengnum. Svo má auðvitað ekki gleyma besta manni FH-liðsins í kvöld að mati greinarhöfundar, en það er Sverrir Garðarsson. Hann átti virkilega sterka innkomu í lið FH í kvöld, virkaði frískur í sóknarleiknum og skoraði alls 8 mörk og var þar með markahæsti maður liðsins. Flottur leikur hjá Sverri og vonandi að hann nái að halda uppteknum hætti.

Eins og sagt er hér að ofan var Sverrir markahæstur FH-inga með 8 mörk. Næstur kom Ólafur Guðmundsson með 7 mörk (þrátt fyrir að vera tekinn úr umferð megnið af leiknum) og þá skoraði Ásbjörn Friðriksson 5 mörk. Pálmar Pétursson varði 10 skot í markinu að þessu sinni og Daníel Andrésson varði 9 skot.

Næsta verkefni FH-inga er laugardaginn 13. nóvember en þá mæta þeir stigalausu liði Vals í Vodafone-höllinni á Hlíðarenda. Nánar um þann leik síðar.

Við erum FH!