FH.is hafði samband við Einar Andra annan þjálfara FH og spurði hann um veturinn það sem af er og leikinn við Fram á fimmtudag.

Hvernig finnst þér tímabilið hafa farið af stað?

Það hefur bara byrjað ágætlega miðað við öll meiðslin sem að hafa plagað okkur frá því að við byrjuðum að æfa í ágúst. Fyrstu þrír leikirnir gengu í raun vonum framar á meðan leikurinn við HK var töluverð vonbrigði. Reyndar verðum við að horfa á það að strákarnir börðust allan tímann og gáfust aldei upp, þeir fá plús fyrir það.

 

Nú er FH spáð deildarmeistaratitli. Er það raunhæf spá?

Deildin er ótrúlega jöfn og hefur sennilega aldrei verið jafnari. Lið eins og Haukar, Akureyri og Fram hafa öll mannskap í að enda í toppsætinu ef allt gengur upp og þau verða heppin með meiðsli. Meiðsli lykilmanna hafa mikil áhrif á þetta Íslandsmót, það lið sem sleppur hvað best við meiðslin á mikla möguleika. Við erum hins vegar með mjög gott lið og ætlum okkur stóra hluti. Það má samt ekki gleyma því að það þarf allt að ganga upp, við þurfum að fá menn úr meiðslum og halda áfram að bæta okkur,  en strákarnir leggja mjög hart að sér og leggja sig alla fram.

 

Hvernig er staðan á meiðslum?

Eins og staðan er núna vitum við ekki hvænar Örn Ingi verður með, það er verið að reyna að koma í veg fyrir að hann þurfi að fara í aðgerð með markvissum æfingum. Það styttist í Ólaf Gústafsson en hann er allur að koma til. Benedikt meiddist illa á öxl og verður frá í nokkrar vikur. Hjörtur er að hressast og verður jafnvel með fyrir áramót. Sigurður Ágústsson fór í krossbandsaðgerð 1. September og er á fullu í enduhæfingu, hann stendur sig ótrúlega vel og ætlar að mæta á gólfið í síðasta lagi næsta vetur.  Baldvin Þorsteinsson okkar nýjasti liðsmaður á við axlarmeiðsl að stríða en við vonumst til að hann komi til að spila, jafnvel í þessum mánuði.   Logi meiddist síðan á öxl með landsliðinu sem er mjög slæmt fyrir okkur því hann var að koma sterkur inn á miðjunni.  Vonandi eru samt meiðslin hans ekki mjög alvarleg!

 

Hvernig lýst þér á leikinn við Fram?

Leikurinn við Fram er mjög mikilvægur. Framarar eru með eitt best mannaða liðið með frábærar skyttur  eins og  Jóhann Gunnar og Róbert Aron.  Þetta verður erfiður leikur því Fram liðið er sterkt og vann m.a. Val með 17 mörkum.  Ég býst við leikurinn verði jafn og úrslit ráðast ekki fyrr en á lokamínútum.  En við erum á heimavelli og þar líður okkur vel enda umgjörðin og stemmningin til fyrirmyndar. Stuðningsmannahópurinn FH dínamítið hefur verið magnaður í fyrstu leikjunu og við hlökkum til að spila á morgun við Fram.