FH-ingar leika í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar á morgun en þá mæta þeir toppliði 1. deildar, Gróttu, í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi. Fyrirfram gæti fólk búist við auðveldum sigri okkar manna, en Grótta gæti reynst sýnd veiði en ekki gefin.

Grótta
Lið Gróttu frá Seltjarnarnesi situr eins og sakir standa í efsta sæti 1. deildar með 11 stig, jafnt liðum ÍBV og ÍR sem eru í 2-3. sæti. Gróttumenn hafa unnið 5 leiki, gert eitt jafntefli en tapað einum leik – gegn ungmennaliði FH í Krikanum þann 8. október.

Það leikur lítill vafi á því að leikurinn verður langt frá því að vera auðveldur fyrir okkar menn. Lið Gróttu er vel mannað og inniheldur unga og efnilega Seltirninga í bland við reynda kappa með umtalsverða reynslu í efstu deild. Ungu strákarnir hlutu margir hverjir eldskírn sína í efstu deild í fyrra, en þaðan féllu Gróttumenn síðastliðið vor. Meðal þekktari leikmanna Gróttu má nefna markvörðinn Magnús Sigmundsson, sem gekk í Gróttu úr FH í sumar. Auk þess eru Hjalti Þór Pálmason og Ægir Hrafn Jónsson enn innan herbúða félagsins. Gróttumenn fengu í sumar til sín Valsmanninn Sigurð Eggertsson, en hann hefur reynst þeim ansi drjúgur það sem af er vetri og er næstmarkahæstur Gróttu með 31 mark.

Í fyrra léku Gróttumenn í N1-deild karla í fyrsta sinn eftir nokkurra ára fjarveru. Þeir luku keppni í næstneðsta sæti deildarinnar, sæti fyrir ofan Stjörnuna, og þurftu því að fara í umspil um sæti í úrvalsdeild. Þar töpuðu þeir gegn öflugu liði Aftureldingar í eftirminnilegri rimmu sem lauk með naumum sigri Mosfellinga. Mikið svekkelsi fyrir lið Gróttu, enda var liðið að margra mati nægilega vel mannað til að halda sæti sínu í deildinni. Það er þó ekki styrkur mannskaps sem skiptir máli í lok dags – lið verða einfaldlega að vinna sér fyrir sigrum, og það gerði Grótta ekki.

En staða Gróttu í deildinni breytti því ekki að þeir virtust hafa afar sterk tök á liði FH síðastliðinn vetur. Liðin mættust þrisvar, þar af tvisvar í Kaplakrika, og unnu Gróttumenn sigur í tveimur leikjum (báðir leikirnir í Krikanum). Fyrsti leikurinn fór fram í Kaplakrika, þar sem Gróttumenn unnu 6 marka sigur, 32-38. Næsti leikur var á Seltjarnarnesi og unnu FH-ingar hann, 27-30. Þriðja viðureign liðanna var ef til vill sú mest eftirminnilegasta, þó ekki á góðan hátt því Gróttumenn gjörsigruðu FH-inga, 23-30. Það má því segja að FH-ingar eigi harma að hefna eftir þessa herfilegu útreið.

Síðasti leikur Gróttu í 1. deildinni var gegn Stjörnunni, en þar unnu Gróttumenn 33-30 sigur á Stjörnuliði sem kemur vafalaust til með að berjast um eitt af toppsætum 1. deildar í vetur. Ágætis veganesti fyrir Seltirninga og þeir munu eflaust mæta kokhraustir til leiks gegn okkar mönnum.

FH
Við FH-ingar erum í 4. sæti N1-deildar karla eftir 6 leiki með 8 stig. Við erum jafnir Frömurum að stigum, en góður sigur á Val síðastliðinn laugardag tryggði okkur það hlutskipti um stundarsakir. Þar áður höfðum við tapað tveimur leikjum í röð, gegn HK og Fram, og það var því mikill léttir er við unnum loks sigur á Völsurum í Vodafone-höllinni. En nú er nýr vettvangur – annað mót, nýr leikur og allt önnur stemning, en vitað er að Seltirningar mæta mun betur á leiki en Valsarar og má því búast við þéttsetnum pöllum í hinu smáa íþróttahúsi Seltirninga. Ennþá betri ástæða fyrir FH-inga að fjölmenna á völlinn og hvetja sína menn áfram!


Ási að skora í síðasta leik liðanna tveggja, sem endaði með ósköpum

Eins og áður sagði vannst góður sigur á Val í síðasta leik. Þar var um að ræða sigur liðsheildarinnar – leikurinn byrjaði erfiðlega, en