FH.is náði í skottið á Ásbirni Friðrikssyni, miðjumanni, og einn af lykilmönnum FH. Undirritaður spjallaði við Ásbjörn um leikinn í dag, FH – Akureyri, en hann hefst klukkan 15:45.


Ási Frikk verður eflaust í stóru hlutverki gegn Akureyri á morgun

Sælir, Ási. Leikur gegn þínu gamla félagi á morgun, hvernig líst þér á hann?
„Ég hlakka bara fyrst og fremst til þess að mæta þeim enda hefur okkur gengið þokkalega vel með þá síðan ég kom í FH. Vonandi verður bara áframhald af því á morgun.“

Þið hafið væntanlega notað vikuna til þess að fara yfir styrkleika og veikleika Akureyrar? Hverjir telur þú að séu helstu styrkleikar Akureyringa?
„Akureyringar eru með gott lið og það hefur komið í ljós að þeir eru með meiri breidd en þeir reiknuðu með í byrjun tímabils. Þeirra helstu styrkleikar liggja í vörn, markvörslu og hraðaupphlaupum. Bubbi hefur verið að verja vel og þeir hafa náð að nýta sér það með því að fá fullt af hraðaupphlaupum. Þetta er eitt af því sem við þurfum að koma í veg fyrir á morgun til þess að innbyrða sigur.“

Okkar gamli liðsfélagi, Bjarni Fritzson, hefur byrjað tímabilið vel fyrir Akureyringa. Munt þú ekki fara extra fast í hann af tilefni endurkomunnar?
„Bjarni er náttúrulega góður leikmaður, eins og við vitum, sem þarf að stöðva til að vinna Akureyri. Við tökum bara á honum eins og hverjum öðrum leikmanni sem mætir í Krikann.“

Nú er þetta stórleikur, tvö af bestu liðum deildarinnar að mætast og skiptir leikurinn sem slíkur gríðarlega miklu máli upp á framhaldið. Má fastlega búast við miklum fjölda og svoleiðis…ertu með einhver skilaboð til stuðningsmanna FH?
„Já, ég vona að það verði góð stemning á pöllunum og mikil hróp og öskur því það hjálpar okkur gríðarlega mikið inni á vellinum. 
Vona að allir mæti á völlinn í stað þess að vera heima í stofu fyrir framan imbann.“

Viðtal og uppsetning: Anton Ingi Leifsson