Það má segja að það sé skammt stórra högga á milli hjá liði FH um þessar mundir. Eftir góðan sigur á sterku liði Vals síðastliðinn fimmtudag eiga FH-ingar framundan tvo erfiða leiki í vikunni. Fyrra verkefni FH-inga er Selfoss á Selfossi, og má þar búast við virkilega erfiðum leik gegn liði sem er að berjast fyrir tilveru sinni í efstu deild. FH-ingar þurfa því að mæta 100% tilbúnir, ætli þeir sér að vinna sigur.


Selfoss
Selfyssingar sitja á botni deildarinnar með 7 stig, stigi á eftir liði Aftureldingar sem situr í sætinu fyrir ofan þá. Þeir hafa leikið 18 leiki, unnið einungis tvo, gert heil þrjú jafntefli en tapað 13 leikjum.

Lið Selfoss hefur staðið í miklu stappi í deildinni í vetur. Þeir hafa verið í öðru af botnsætum deildarinnar frá upphafi, ásamt Aftureldingu, og hafa þrátt fyrir marga góða leiki ekki náð að innbyrða nógu marga sigra. Þeir hafa þó verið í ákveðinni sókn upp á síðkastið og hafa oft verið nálægt því að landa sigri, en hafa oft misst leikina úr höndum sér – sennilega sökum reynsluleysis.

Það er þó ljóst að Selfyssingar geta á góðum degi unnið hvaða lið sem er. Leikmenn liðsins eru langflestir uppaldir á Selfossi og í þeim býr því mikið og stórt Selfoss-hjarta sem getur oft  hjálpað mikið til. Þá er í liðinu einn mest spennandi handknattleiksmaður sem við Íslendingar eigum; Ragnar Jóhannsson, hægri skytta. Hann er einn af markahæstu mönnum N1-deildarinnar þetta tímabilið og getur unnið leiki upp á eigin spýtur. Þann mann verður að passa ef ekki á illa að fara.


Ólafur Guðmundsson var markahæstur FH-inga í báðum leikjum liðsins við Selfoss fyrr í vetur

Fyrri leikir liðanna
Liðin tvö hafa mæst tvisvar í vetur, einu sinni í Kaplakrika og einu sinni á Selfossi. FH-ingar hafa unnið sigur í bæði skiptin.

FH 31-25 Selfoss, 14. október 2010, Kaplakriki
Liðin tvö mættust fyrst í þriðju umferð N1-deildar karla. FH-ingar höfðu unnið fyrstu tvo leiki sína í deildinni mjög sannfærandi (tveir níu marka sigrar, gegn Aftureldingu og Haukum) á meðan Selfyssingar höfðu tapað sínum fyrsta leik (gegn Fram, 33-27) en unnið annan leikinn (móti Val, 32-30). Það mátti því búast við hörkuleik.

FH-ingar höfðu hins vegar frumkvæðið allan tímann. Eftir að hafa verið 6 mörkum yfir í hálfleik, 20-14, lönduðu FH-ingar að lokum öruggum sigri, 31-25. Markahæstur í liði FH var Ólafur Andrés Guðmundsson með 7 mörk, en Ragnar Jóhannsson og Atli Kristinsson skoruðu 8 mörk hvor fyrir Selfoss.

Selfoss 32 – 38 FH, 12. desember 2010, Íþróttahús Vallaskóla á Selfossi
Þessi leikur var jafnari en sá fyrri en samt sem áður höfðu FH-ingar yfirhöndina lengst af. Lokatölur voru 38-32, FH í vil, en staðan í hálfleik var 20-16 fyrir FH. Atkvæðamestur í liði FH var Ólafur Guðmundsson með 11 mörk en næstur honum kom Ásbjörn Friðriksson með 9 mörk. Þá fór Ragnar Jóhannsson á kostum fyrir Selfoss, en hann skoraði 15 mörk úr 17 skotum. Þá skoraði Atli Kristinsson 8 mörk.


Varnarleikur FH-inga hefur verið lykillinn að sigurgöngu liðsins – ekki verra þegar Palli dettur í gang í markinu!

FH
FH-ingar hafa unnið 4 leiki í röð og sitja í