FH-ingar gulltryggðu sér 2. sæti N1-deildar karla í gærkvöldi með sigri á Haukum, 24-23, í háspennuleik í Kaplakrika. Leikurinn var í næstsíðustu umferð deildarkeppninnar og ljóst var fyrir leik að Haukarnir yrðu að vinna til þess að eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Að sama skapi gátu FH-ingar tryggt sér 2. sæti deildarinnar með jafntefli eða sigri. Það mátti því búast við hörkuleik, eins og alltaf þegar þessi lið mætast.

Leikmenn liðanna voru augljóslega vel stemmdir þegar leikurinn hófst. Þó örlaði fyrir smá taugaspennu, sem er svosem ekki skrýtið ef litið er á stærðargráðu leiksins. Lið Hauka lék vörn sína framarlega, sem virtist valda FH-ingum vandræðum í fyrstu. FH-ingar gerðu talsvert mikið af mistökum í sókninni, mörg skot voru óvönduð og svo framvegis. Hins vegar voru Haukarnir lítt betri og því hélst jafnræði með liðunum á upphafsmínútum leiksins.

Um miðbik seinni hálfleiksins virtust gestirnir hins vegar ætla að hafa yfirhöndina. Þeir léku sterkan varnarleik og þá var Birkir Ívar Guðmundsson að verja vel, en það var þó ekki síst slæmum skotum FH-inga að þakka. Haukarnir voru því með forystu í leiknum þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

FH-ingar tóku leikhlé þegar fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum. Strákarnir tóku vel við sér í kjölfari leikhlésins. Þeir breyttu stöðunni úr 8-10 í 11-11 og sú var staðan þegar tvær mínútur lifðu eftir af hálfleiknum.

Síðustu tvær mínútur hálfleiksins voru taugatrekkjandi. Boltinn gekk milli marka en FH-ingar náðu að lokum að skora og höfðu því eins marks forystu í hálfleik, 12-11. Markahæstir FH-inga í fyrri hálfleik voru þeir Ólafur Guðmundsson og Ásbjörn Friðriksson með 3 mörk hvor og þá varði Pálmar Pétursson 7 skot í markinu.

Seinni hálfleikur hófst nokkurn veginn svipað og sá fyrri, nema nú virtust FH-ingar ætla að taka yfirhöndina. Þeir náðu m.a.s. 3ja marka forskoti og mátti því ætla að þeir væru að síga framúr Haukaliðinu. En sú reyndist þó ekki vera raunin. Haukarnir jöfnuðu jafn óðum og leikar héldust svo jafnir út leikinn. Liðin skiptust á að hafa forystuna, en þó voru FH-ingar lengst af með eins til tveggja marka forskot.

En þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum virtust Haukarnir vera sterkari. Þeir voru yfir með einu marki þegar rúmar tvær mínútur voru eftir, 22-23, og því var ljóst að það var á brattann að sækja fyrir FH-inga. FH-ingar náðu þó að jafna með marki Arnar Inga Bjarkasonar og komust svo yfir í kjölfarið með marki frá Ólafi Guðmundssyni. Haukarnir áttu boltann síðustu mínútuna, sóttu án afláts en fengu einungis fríkast í þann mund er bjöllurnar glumdu í Krikanum. Þórður Rafn Guðmundsson tók fríkastið fyrir Haukana, náði að setja boltann fram hjá veggnum en Pálmar Pétursson, sem hafði átt virkilega góðan dag, var vel á tánum og varði boltann út af. Við þetta ærðust FH-ingar, innan vallar sem utan, af fögnuði. Gleðin mikil í Krikanum!

FH-ingar áttu í heild sinni mjög góðan leik í gærkvöld