Annar leikurinn í úrslitaviðureign FH og Akureyrar fer fram á morgun, föstudag, er Norðanmenn sækja FH-inga heim í Krikann. Ljóst er að þeir munu mæta gríðarlega ákveðnir til leiks, enda sárir og svekktir eftir fyrsta leik liðanna þar sem okkar menn unnu góðan eins marks sigur. FH-ingar verða því að mæta Norðanmönnum af fullum krafti í Krikanum annað kvöld ætli þeir sér að vinna sigur í leiknum.

Vart þarf að útlista mikilvægi leiksins, enda ætti það að vera öllum vel kunnugt. Í úrslitaeinvígi sem þessu er hver leikur öðrum mikilvægari. Það var feikilega mikilvægt fyrir FH-inga að hefja einvígið á góðan hátt, líkt og þeir gerðu fyrir norðan á þriðjudaginn. Það er ekki síður mikilvægt að fylgja því eftir með góðum leik í Krikanum annað kvöld.

Lið Akureyrar mætir baráttuglatt til leiks, svo mikið er víst. Deildarmeistararnir léku, að eigin mati, langt undir getu í leik liðanna á þriðjudaginn og vilja þeir eflaust bæta upp fyrir það.

FH-ingar ættu að sama skapi að mæta til leiks með það að markmiði að leika nokkurn veginn líkt og þeir gerðu á þriðjudaginn. Sá leikur vannst á varnarleik, markvörslu, öguðum sóknarleik og þeirri staðreynd að FH-ingar voru oftar en ekki á undan Akureyringum að keyra til baka í vörn – en aðalsmerki norðanmanna í vetur hafa verið hraðaupphlaupin. Segja má að FH-ingar hafi svipt norðanmenn sínu aðalvopni þegar þeir komu í veg fyrir hraðaupphlaupin, og verður það að halda áfram ætli strákarnir sér að vinna sigur.


Atli Rúnar tryggði FH-ingum sigur á lokasekúndunni í fyrstu viðureign liðanna

Kæri FH-ingur, ég hvet þig eindregið til þess að mæta í Krikann annað kvöld og styðja við þitt lið. Þetta er svo sannarlega tilefnið til þess. Ég hvet þig til að mæta á völlinn, í hvítu að sjálfsögðu, og styðja þitt fram til sigurs!

Miðasala á leikinn hefst kl. 17:00 en almenn upphitunardagskrá hefst kl. 19:00. Skemmtidagskráin er, eins og vanalega, af dýrari gerðinni – en nánari upplýsingar um hana má finna í eldri frétt hér á FH.is. Leikurinn sjálfur hefst svo kl. 20:15.

Allir á völlinn!
Við erum FH!