Nú er komið að því, eitthvað sem margir hafa beðið eftir í ofvæni. N1-deild karla í handknattleik hefur göngu sína á mánudaginn, og þar með hefst titilvörn okkar FH-inga – en við unnum glæstan sigur á Íslandsmótinu síðasta vor eins og margfrægt er orðið.

Og það er engin smá viðureign sem við FH-ingar fáum í fyrsta leik. Feikisterkt lið Framara, sem ætlar sér án alls vafa að berjast um titilinn í vetur, mætir í Krikann á mánudaginn og freistar þess að leggja Íslandsmeistarana að velli. FH-ingar ætla sér að sama skapi að hefja tímabilið af krafti með góðum sigri í fyrsta leik. Það verður því hart barist á fjölum Kaplakrika á mánudagskvöldið.

Fram

Mikið hefur gengið á í herbúðum Framara frá því að síðastliðnu tímabili lauk. Framarar, sem enduðu í 3. sæti N1-deildar karla og komust í undanúrslit í Íslandsmótinu, réðu Einar Jónsson sem þjálfara liðsins eftir að Reynir Þór Reynisson hætti í byrjun maí. Þá urðu einnig talsverðar breytingar á mannskap Fram-liðsins, liðið missti sterka leikmenn en í staðinn komu spilarar sem eiga að fylla upp í þau skörð.

Meðal þeirra leikmanna sem hurfu á braut eru Andri Berg Haraldsson, sem hélt heim á leið til okkar í FH, og Haraldur Þorvarðarson, sem var leystur undan samningi og spilar nú með Stjörnunni í Garðabæ. Þá gekk norðanmaðurinn Magnús Stefánsson til liðs við ÍBV og spilar í Vestmannaeyjum á komandi vetri.

Í stað þeirra fengu Framarar þá Sigurð Eggertsson og Ægi Hrafn Jónsson frá Gróttu, Sebastian Alexandersson frá Selfossi og Ingimund „Didda“ Ingimundarson frá Álaborg í Danmörku. Ingimundur verður að teljast þeirra helsta styrking, enda feikilega sterkur leikmaður sem hefur spilað stóra rullu í íslenska landsliðinu síðustu ár.

Gengi Framara í æfingamótum í sumar hefur verið gott og bendir til þess að þeir séu til alls líklegir í vetur. Þeir unnu alla sína leiki í Reykjavíkurmótinu, flesta mjög sannfærandi. Það er því ekki við öðru að búast en því að þeir mæti sterkir til leiks í Íslandsmótið og verður lið FH að eiga góðan leik til að leggja þá að velli.

Fyrri leikir liðanna

Lið FH og Fram háðu marga harða hildi á síðastliðnu Íslandsmóti. Alls spiluðu liðin 6 leiki; FH vann þrjá þeirra, Framarar tvo en einn leikur endaði með jafntefli.

FH 33-38 Fram, N1-deild karla, 4. nóvember 2010.
FH-ingar riðu ekki feitum hesti úr fyrstu viðureign liðanna síðastliðinn vetur. Má þar helst kenna um slöppum varnarleik af hálfu FH-inga, en það að skora 33 mörk og tapa samt á heimavelli verður að teljast óvenjulegt í Krikanum. Þessi leikur var annar tapleikur FH-inga í röð síðasta tímabil, en áður höfðu þeir tapað á móti HK í Digranesi. Þetta var einn af einungis þremur leikjum sem FH-ingar töpuðu á heimavelli þetta tímabilið. Sverrir Garðarsson var m