Kæru FH – ingar


Nú stendur baráttan sem hæst. Okkur eru ennþá allir vegir færir. Við eigum fjóra leiki eftir og þurfum sigur í þeim öllum til þess að eiga möguleika að ná markmiðum okkar um sæti í úrslitakeppninni. Veturinn fór vel af stað. Við sátum í efsta sæti deildarinnar eftir 9 umferðir en gengið hefur ekki verið eftir væntingum þjálfara og leikmanna síðan af ýmsum ástæðum.

Markmið handboltaliðs FH, og reyndar allra annarra deilda innan félagsins, hafa síðustu ár verið háleit eins og árangur síðustu ára hefur sýnt. Markmið þessa tímabils voru metnaðarfull en stundum fara hlutirnir ekki eins og maður sáir til. Strákarnir hafa lagt gríðarlega hart að sér í allan vetur og verða ekki sakaðir um að leggja sig ekki fram í leikjum eða æfingum. Liðið hefur lent í alls konar hremmingum sem ekki þýðir að velta sér upp úr núna.

Þjálfararnir ákváðu að leita til Kristjáns Arasonar til að hressa upp á leik liðsins og var það flott skref hjá þeim. Við erum sannfærðir um að þeir ásamt leikmönnum liðsins munu gera allt til að snúa við gengi liðsins.  

Fyrsta skrefið verður stigið á morgun þegar FH mætir Fram, spútnikliði deildarinnar, í Safamýrinni á morgun kl. 20:00.  Við hvetjum alla FH-inga til að mæta í Safamýrina og hvetja strákana því stuðningurinn frá ykkur getur skipt sköpum til að innbyrða sigur í leiknum.

  

Munum  mottó stuðningsmanna FH:

„Traustir í meðbyr – tryggir í mótbyr“  

 

Áfram FH !

Baldvin Þorsteinsson

Guðjón Árnason

Sigurgeir Árni Ægisson

Þorgils Óttar Mathiesen