Strákarnir okkar komu sér í 2. sæti Olísdeildar karla, að minnsta kosti um sinn, með baráttusigri gegn sterku liði Fram í Krikanum í gærkvöldi.
Leikurinn fór frábærlega af stað hjá FH-liðinu. Varnarleikurinn leit vel út og þá fundu strákarnir glufur á vörn Fram-liðsins trekk í trekk. Fyrstu fjögur mörk leiksins voru FH-inga, og var forysta þeirra lengst af í kringum 5 mörkin í fyrri hálfleik. Framarar náðu þó aðeins að klóra í bakkann fyrir hálfleiksflautið, og þegar liðin gengu til búningsherbergja var þriggja marka munur á þeim 13:10, FH í vil.
Safamýrarpiltar mættu til leiks af miklum krafti í seinni hálfleik og jöfnuðu leikinn í fyrsta sinn á 38. mínútu, þegar Seltirningurinn Þorgeir Bjarki Davíðsson skoraði úr hægra horninu. Staðan orðin 19:19, og skyndilega blés meðbyrinn all hressilega í bak bláklæddra. Þeir byggðu á þessum meðbyr, komust yfir í kjölfarið og voru komnir með þriggja marka forystu þegar ekki voru nema um 10 mínútur eftir af leiknum.
Þegar hingað var komið höfðu FH-ingar gerst sekir um nokkurn klaufaskap í sóknarleiknum, og þá hélt varnarleikurinn ekki eins vel og hann hafði gert í byrjun. Framarar gengu á lagið og sýndu, eins og þeir hafa gert hingað til í vetur, hvers þeir eru megnugir þrátt fyrir þá dómsdagsspá sem kastað var yfir liðið fyrir tímabilið. Góð lið kunna að refsa, og það gerðu Framarar fyrstu 20 mínútur síðari hálfleiks.
En okkar menn voru ekki hættir. Góð mörk frá Gísla Þorgeiri Kristjánssyni og Frömurunum fyrrverandi Arnari Frey Ársælssyni og Óðni Þór Ríkharðssyni komu FH-liðinu aftur inn í leikinn, og þegar 6 mínútur voru eftir stóð aftur jafnt – 26:26, og leikurinn gat því fallið hvoru megin sem var. Framarar komust yfir í tvígang á nýjan leik áður en yfir lauk, en í bæði skiptin náðu FH-ingar að svara fyrir sig. Það var síðan vel við hæfi að á lokamínútu leiksins skyldi Gísli Þorgeir, sem að öðrum ólöstuðum var besti maður vallarins í kvöld, skora sigurmark FH-liðsins eftir góða sókn. Lokatölur 29:28, FH í vil, og 2. sæti deildarinnar staðreynd – í það minnsta til laugardags.
Það er afar góðs viti að FH-liðið geti klárað leiki sem þennan. Þegar mótbyrinn var orðinn sem mestur, og FH-liðið hafði leikið klaufalega í 20 mínútur, stigu menn upp úr stíunni og lokuðu leiknum svo að sómi er að. Það er mikið þroskamerki, því það hefði verið auðvelt að brotna. Framarar eru engir aukvisar, og hafa sýnt það með flottum sigrum á Ásvöllum og víðar það sem af er þessa tímabils. Þetta eru því tvö afar góð stig, og tvö kærkomin stig í baráttunni í efri hluta deildarinnar.
Líkt og áður sagði var Gísli Þorgeir besti maður FH-liðsins í kvöld, en hann varð markahæstur með 7 mörk og stýrði sóknarleiknum þar fyrir utan af mikilli prýði. Stundum þarf maður að minna sig á að þar fer 17 ára gutti, en hvílíkur 17 ára gutti. Sannarlega þess virði að kíkja í Krikann fyrir. Næstir á eftir honum í markaskorun komu Einar Rafn Eiðsson og Óðinn Þór Ríkharðsson, báðir með 6 mörk. Stöðugleikinn uppmálaður, enda báðir tveir með rúm 6 mörk að meðaltali í leik í deildinni.
Í næstu umferð halda strákarnir okkar norður og mæta Akureyri í KA-heimilinu. Meira um þann leik þegar nær dregur.
Við erum FH!
Mörk FH: Gísli Þorgeir Kristjánsson 7, Einar Rafn Eiðsson 6/2, Óðinn Þór Ríkharðsson 6, Ágúst Birgisson 4, Arnar Freyr Ársælsson 4, Jóhann Birgir Ingvarsson 2. Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 9, Birkir Fannar Bragason 4.
.
– Árni Freyr
helstu2