Strákarnir okkar komu sér aftur á sigurbraut í gærkvöldi með flottum sigri á Gróttu, 26-22, í Kaplakrika í gær. Sigurinn var einstaklega kærkominn eftir nokkra leiki í röð þar sem FH-liðið hafði leikið þokkalega, en ekki tekist að næla í sigur.

Það var ekki nokkur spurning í gærkvöldi hvort liðið vildi sigurinn meira. Sóknarleikurinn var stirður á köflum, en varnarleikurinn allan leikinn var þess eðlis að FH-liðið var aldrei á leið út af gólfinu með minna en 2 stig í farteskinu.

Fyrri hálfleikurinn var jafn á flestum tölum. FH-ingar voru með frumkvæðið að fyrstu fimm mínútunum undanskildum, en áttu erfitt með að slíta Seltirninga almennilega af sér líkt og hefur oft verið vandi liðsins í síðustu leikjum. Síðustu þrjár mínútur hálfleiksins voru prýðilegar, og fóru strákarnir okkar inn í hálfleikinn með tveggja marka forskot; 13-11 var staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik voru FH-ingar alltaf á tánum. Þegar Gróttumenn skoruðu og minnkuðu muninn í eitt mark, svöruðu okkar menn ávallt um hæl. Seltirningum tókst aldrei að jafna metin í síðari hálfleik, og á síðustu 10 mínútum leiksins voru það okkar menn sem bættu í. Á 55. mínútu skoraði Arnar Freyr Ársælsson, sem átti afbragðsgóðan leik, gott mark og jók muninn í 5 mörk. Varð það mesti munurinn á liðunum í leiknum, en Gróttumenn náðu að minnka muninn í 4 áður en yfir lauk. Lokatölur, líkt og áður sagði, 26-22 fyrir FH og 2 afar dýrmæt stig í höfn.

Frábær varnarleikur og markvarsla stóðu upp úr hjá strákunum okkar í gærkvöldi. Færslan á vörninni var gríðarlega góð og brotin voru skynsöm, sem endurspeglaðist í því að FH-liðið fékk aðeins eina brottvísun dæmda á sig í gærkvöldi. FH spilaði fast, en agað. Á bak við frábæra varnarlínu FH-liðsins stóð svo Ágúst Elí Björgvinsson öflugur sem fyrr, en hann var besti maður okkar í gærkvöldi með 18 skot varin.

Uppstilltur sóknarleikur var á köflum stirður, en það kom ekki að sök í ljósi þess hve góður varnarleikurinn var. Góður varnarleikur leiðir til hraðaupphlaupa, og það er ekkert nema jákvætt fyrir lið sem hefur Arnar Freyr Ársælsson og Óðinn Þór Ríkharðsson innanborðs. Báðir skoruðu þeir 6 mörk í leiknum, og komu ófá þeirra úr hraðaupphlaupum þar sem þeir félagar voru fyrstir fram.

Arnar Freyr og Óðinn Þór, ásamt Einari Rafni Eiðssyni, voru markahæstir í liði FH-inga í gærkvöldi með 6 mörk líkt og áður kom fram. Einar Rafn fann sig vel í gær, en hann hefur verið afskaplega stöðugur í vetur. Jóhann Birgir Ingvarsson skoraði 4 mörk, þar af nokkur í dýrari kantinum. Þá fengum við 4 mörk af línunni, Jóhann Karl Reynisson setti eitt í lok fyrri hálfleiks og Ágúst Birgisson skoraði 3 mörk á afar mikilvægum tímapunkti í leiknum, þegar FH-ingar náðu upp þeim mun sem síðan skilaði sigrinum.

Strákarnir okkar eiga mikið hrós skilið fyrir hvernig þeir tókust á við verkefnið í gær. Þeir gerðu það saman sem lið, og börðust frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Hverju einasta góða broti var fagnað vel, sem og hverju einasta góða marki. Það veit á gott, því erfiður leikur á útivelli er framundan í næstu viku. Þá sækja strákarnir okkar Eyjamenn heim, og þar þarf nákvæmlega svona baráttu og liðsanda til að vinna sigur.

Við erum FH!

– Árni Freyr

Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 6/1, Arnar Freyr Ársælsson 6, Óðinn Þór Ríkharðsson 6, Jóhann Birgir Ingvarsson 4, Ágúst Birgisson 3, Jóhann Karl Reynisson 1.

Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 18.

helstu2