Strákarnir okkar sóttu nýliða Stjörnunnar í Garðabæ heim í gærkvöldi, en leikurinn var liður í 11. umferð Olísdeildarinnar. Boðið var upp á mikla dramatík í jafnteflisleik, líkt og í fyrri umferðinni þegar liðin mættust í Krikanum. Í þetta sinn voru það þó Stjörnumenn sem fögnuðu fengnu stigi, á meðan niðurstaðan var okkar mönnum sár vonbrigði.

Sóknarleikur FH-liðsins gekk erfiðlega til að byrja með, og skoruðu okkar menn aðeins einu sinni á fyrstu 10 mínútum leiksins. Stjörnumönnum gekk öllu betur að finna netmöskvana, eða fjórum sinnum. Strákarnir okkar svöruðu hins vegar með 3 mörkum í röð og stóð staðan því jöfn eftir korters leik. Eftir þetta voru strákarnir okkar með frumkvæðið í hálfleiknum, komust yfir nokkrum sinnum en náðu þó aldrei að slíta sig almennilega frá heimaliðinu. Þegar haldið var til búningsherbergja í hálfleik voru FH-ingar einu marki yfir, 10-11, og útlitið nokkuð gott.

FH-ingar mættu ákveðnir til leiks í byrjun síðari hálfleiks og skoruðu fyrstu þrjú mörk hans, staðan orðin 10-14 eftir 34 mínútna leik. Því náðu þeir hins vegar ekki að fylgja nægilega vel eftir, og komu Stjörnumenn sér því aftur inn í leikinn. Guðmundur Guðmundsson, sprækasti útispilari Garðbæinga í leiknum, jafnaði leikinn á 44. mínútu og í kjölfarið komust Stjörnumenn svo yfir. Leikurinn var svo afar jafn til leiksloka. FH-ingar komust í nokkur skipti marki yfir og hefðu svo getað fylgt því eftir í kjölfarið, en það mislukkaðist í hvert sinn.

Okkar menn litu þó út fyrir að hafa tryggt sér sigurinn þegar Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði áttunda mark sitt í leiknum 20 sekúndum fyrir leikslok. Eftir langa sókn galopnaðist hægra hornið fyrir Óðinn, sem átti ekki í erfiðleikum með að skora framhjá Sveinbirni Péturssyni í marki Stjörnunnar. Stjörnumenn tóku leikhlé, og í kjölfarið snarpa sókn. FH-ingar spiluðu frábæra vörn og Stjarnan fékk aukakast, sem fyrirliðinn Garðar Sigurjónsson skoraði úr. Framkvæmd aukakastsins var afar áhugaverð, svo ekki sé meira sagt. FH-ingar, hvort sem var úti á gólfi eða á stúkunni, voru afar ósáttir með jöfnunarmarkið og mótmæltu hástöfum. SportTV hefur birt myndbrot sem sýnir þessa lokasókn Stjörnumanna og er það að finna í hlekknum hér fyrir neðan, fyrir þá sem enn hafa ekki séð atvikið. Dæmi hver fyrir sig.

http://www.sporttv.is/handbolti/atvikid-sem-fhingar-eru-brjaladir-yfir

Leiknum lauk eins og áður sagði með öðru jafntefli liðanna í vetur, lokatölur voru 22-22. Svekkjandi niðurstaða fyrir lið FH, sem átti að vinna þennan leik en vantaði, þegar öllu er á botninn hvolft, drápseðlið sem þurfti til.

Óðinn Ríkharðsson átti góðan leik í lið FH í gærkvöldi, en hann var markahæstur á vellinum með 8 mörk. Einar Rafn Eiðsson og Jóhann Karl Reynisson spiluðu sömuleiðis vel, en þeir skoruðu 5 mörk hvor. Á bak við vörnina stóð Ágúst Elí vaktina afar vel, en hann varði 19 skot og þar af eitt vítakast.

Stutt er í næsta leik, en á fimmtudag kemur lið Gróttu í heimsókn í Kaplakrika. Meira um þann leik er nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Óðinn Þór Ríkharðsson 8, Einar Rafn Eiðsson 5/1, Jóhann Karl Reynisson 5, Ísak Rafnsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1, Arnar Freyr Ársælsson 1. Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 19/1.

– Árni Freyr

helstu2