FH-ingar eiga verðugt verkefni fyrir höndum annað kvöld þegar topplið Aftureldingar kemur í heimsókn í Kaplakrika. Hér er mikill toppslagur í vændum, enda eru strákarnir okkar í þriðja sæti deildarinnar og hafa litið vel út í síðustu tveimur leikjum. Með sigri yrði bilið á milli liðanna aðeins tvö stig, sem myndi sannarlega opna toppbaráttuna upp á gátt fyrir okkar menn.

Afturelding

Mosfellingar hafa vermt efsta sæti Olísdeildarinnar nánast í allan vetur og verið stöðugasta lið deildarinnar lengst af. Eftir erfitt tap gegn Selfossi í fyrsta leik fóru Mosfellingar á mikinn skrið, og máttu ekki þola tap á nýjan leik fyrr en í 10. umferð, aftur gegn Selfossi. Því fylgdi þungt tap gegn Haukum á Ásvöllum.

Í síðustu tveimur umferðum hefur Afturelding sótt sigur gegn Fram og síðan náð jafntefli á lokamínútu leiksins gegn Akureyri.

Misjafnt gengi Aftureldingar síðustu vikurnar má að hluta rekja til meiðslavandræða sem nokkrir lykilmenn hafa staðið í. Þeir hafa verið án Péturs Júníussonar og Böðvars Páls Ásgeirssonar lengst af í vetur, og væri það mikill missir fyrir hvert lið. Þeir misstu síðan út Mikk Pinnonen og Birki Benediktsson, tvær öflugustu skyttur liðsins. Þetta voru einmitt tveir markahæstu leikmenn Aftureldingar þegar FH-ingar heimsóttu Varmá í 5. umferð. Pinnonen og Pétur eru hins vegar snúnir aftur í leikmannahóp Aftureldingar, en þeir léku báðir með gegn Akureyri og verða því örugglega með í Kaplakrika.

Markahæstu leikmenn Aftureldingar það sem af er tímabili eru: Árni Bragi Eyjólfsson, 87 mörk í 13 leikjum, 6.69 að meðaltali. Birkir Benediktsson, 52 mörk í 10 leikjum, 5.20 að meðaltali. Mikk Pinnonen, 36 mörk í 8 leikjum, 4.50 að meðaltali.

Fyrri viðureign liðanna

Afturelding 27 – 26 FH (11-13), 28. september 2016, Varmá. Hér var um afskaplega kaflaskiptan leik að ræða. Okkar menn hefðu vel getað unnið sigur í þessum leik, sem þeir spiluðu almennt frekar vel, en Mosfellingar voru öflugri í síðari hálfleik og hirtu bæði stigin.

Einar Rafn Eiðsson var markahæstur FH-inga í leiknum með 7 mörk og þá var Ágúst Birgisson öflugur á sínum gamla heimavelli, en hann skoraði 6 mörk af línunni. Birkir Benediktsson reyndist okkar mönnum erfiður ljár í þúfu, en hann skoraði 8 mörk. Þá var Mikk Pinnonen með 7 stykki.

FH

Okkar menn hafa spilað vel upp á síðkastið og hirt fimm stig úr síðustu þremur leikjum. Litlu munaði að þessi stig hefðu verið 6 talsins, en það þýðir víst ekki að dvelja við það. Síðasti leikur var sérlega sterkur af hálfu FH-liðsins, en þá fóru þeir til Eyja og unnu góðan eins marks sigur á ÍBV.

Lokatölur í Vestmannaeyjum voru 23-24, FH í vil, og hefði sigurinn sannarlega getað verið stærri. Frammistaðan stóran hluta leiksins verðskuldaði það að minnsta kosti. FH-ingar voru með frumkvæðið í leiknum allan leikinn, voru yfir í hálfleik og leiddu með 5 mörkum þegar að stutt var til leiksloka. Þá gerðu Eyjamenn áhlaup, og tókst á undraverðan hátt að jafna leikinn. FH-ingar voru hins vegar ekki á þeim buxunum að fara aftur upp á land nema með bæði stigin í farteskinu, og þegar hálf mínúta var eftir af leiknum kláraði Óðinn Þór Ríkharðsson leikinn fyrir okkur. Sigur FH-liðsins staðreynd gegn sterku liði ÍBV, fullkomlega verðskuldað og eftir gangi leiksins.

Óðinn Þór var markahæstur í liði FH með 6 mörk, og þá voru Halldór Ingi Jónasson og Einar Rafn Eiðsson einnig öflugir á hægri vængnum með 4 mörk hvor.

Varnarleikur FH-liðsins var það sem stóð upp úr í Vestmannaeyjum, líkt og í umferðinni þar á undan þegar strákarnir lögðu Gróttu að velli. Vörnin var hreyfanleg, braut skynsamlega og náði að halda öflugum Eyjamönnum vel í skefjum. Þá var Ágúst Elí góður á bak við færanlega vörnina. Að meðaltali hefur lið ÍBV skorað 28 mörk í leikjum sínum í vetur og hefur markahæsti leikmaður þeirra, Theodór Sigurbjörnsson, verið með rúm 9.5 að meðaltali í leik. Það er til marks um öflugan varnarleik og markvörslu FH-liðsins að í leiknum á föstudag skoruðu Eyjamenn aðeins 22 mörk, og þá var Theodór undir sínu meðaltali á tímabilinu með 6 mörk.

Spili FH-ingar álíka varnarleik annað kvöld og þeir hafa gert í síðustu umferðum eru allar forsendur fyrir því að þeir geti lagt sterkt lið UMFA að velli. Það munaði ekki miklu síðast þegar liðin mættust, og er ég þess fullviss að strákarnir hafi lært mikið af þeim leik. Þar að auki hefur takturinn almennt verið góður í FH-liðinu upp á síðkastið. Tveir góðir sigrar í röð hafa slegið tóninn fyrir síðustu leiki þessa árs, og með góðum stuðningi úr stúkunni getur sigurganga FH-liðsins haldið áfram.

Leikur FH og Aftureldingar hefst kl. 19:30 annað kvöld, fimmtudaginn 1. desember, og er leikinn í Mekka handboltans á Íslandi. Allir á völlinn!

Við erum FH!

– Árni Freyr

fh-umfa2