Það er heldur betur nóg um að vera í Olísdeildinni þessa dagana, en FH-ingar leika í dag annan leik sinn með stuttu millibili er þeir halda í Garðabæinn og mæta þar Stjörnunni. Leikurinn, sem er þriðji útileikur strákanna okkar í röð, er tilvalið tækifæri fyrir FH-inga að bæta upp fyrir sárt tap gegn Val síðastliðinn fimmtudag.

Það er jafnan erfitt að halda á Hlíðarenda og ná í tvö stig, en okkar menn hefðu með smá heppni og yfirvegun á lokasprettinum getað gert nákvæmlega það. Það hefði að minnsta kosti ekki verið ósanngjörn niðurstaða, ekki eftir þá baráttu sem strákarnir lögðu í að vinna upp fjögurra marka forskot Valsmanna í síðari hálfleik.

Oft getur verið gott að fá næsta leik fljótlega eftir tapleik sem svíður. Okkar menn mæta tilbúnir til leiks í þetta sinn, það er ljóst. Nú sækjum við stigin sem runnu okkur úr greipum á fimmtudag.

Stjarnan

Andstæðingurinn í kvöld, Stjarnan úr Garðabæ, hefur verið í ákveðnum vandræðum síðustu vikurnar. Eftir þrjá tapleiki í röð sitja nýliðarnir í 9. sæti deildarinnar með 8 stig, einu stigi meira en lið Akureyrar sem sótt hefur í sig veðrið upp á síðkastið.

Það voru einmitt Akureyringar sem lögðu Stjörnuna að velli í síðustu umferð, 24-20, en leikið var í KA heimilinu norðan heiða. Í liði Stjörnunnar var FH-ingurinn Ari Magnús Þorgeirsson atkvæðamestur, en hann skoraði 5 mörk. Hann er markahæsti leikmaður Stjörnunnar í vetur, þrátt fyrir að hafa misst úr tvo leiki í byrjun tímabils – þar á meðal fyrri viðureign liðanna í Krikanum, þar sem jafntefli varð niðurstaðan. Annar FH-ingur, Ólafur Gústafsson, lék ekki með fyrir norðan, en hann á við meiðsli að stríða.

Markahæstu leikmenn Stjörnunnar það sem af er tímabili eru:
Ari Magnús Þorgeirsson, 48 mörk í 8 leikjum, 6.00 að meðaltali.
Garðar Benedikt Sigurjónsson, 41 mark í 10 leikjum, 4.10 að meðaltali.
Guðmundur Guðmundsson, 30 mörk í 10 leikjum, 3.00 að meðaltali.

Að öðrum ólöstuðum er Sveinbjörn Pétursson besti leikmaður í liði Stjörnunnar um þessar mundir, en frammistöður hans í fyrri hluta Olísdeildarinnar skiluðu honum sæti í landsliði Geirs Sveinssonar fyrr í mánuðinum. Það verður því að teljast lykill að sigri annað kvöld að halda honum köldum, því sé hann í stuði getur ramminn virkað smærri en ella.

Fyrri viðureign liðanna

FH 23 – 23 Stjarnan (10-14), Kaplakrika, 15. september 2016. Liðin skildu jöfn þegar þau mættust í 2. umferð Olísdeildarinnar í september síðastliðnum. Stjörnumenn voru sterkari aðilinn nánast allan leikinn, voru með fjögurra marka forystu í hálfleik og fimm marka forskot þegar skammt var til leiksloka. Strákarnir okkar voru hins vegar ekki á þeim buxunum að gefast upp, frekar en fyrri daginn! Þeir skoruðu fimm síðustu mörk leiksins og hirtu annað stigið í leik þar sem frammistaðan lengst af var ekki til útflutnings.

Óðinn Ríkharðsson átti frábæran leik í liði FH og skoraði 10 mörk, en næstir á eftir honum komu þeir Einar Rafn Eiðsson með 6 og Jóhann Birgir Ingvarsson með 5. Guðmundur Guðmundsson var atkvæðamestur í liði gestanna með 6 mörk.

FH

Líkt og áður kom fram hefðu strákarnir okkar alveg eins getað unnið sigur á Val á fimmtudag (30-29 tap), og var ýmislegt jákvætt í leik liðsins. Markaskorið dreifðist ágætlega, 7 menn komust á blað og þá gladdi það sérstaklega að sjá Ísak Rafnsson skora sitt fyrsta mark á tímabilinu. Vonandi fer mínútum hans fjölgandi á næstu vikum, er hann nær sér betur af meiðslunum. Þá fengum við góða markvörslu frá Ágústi Elí, líkt og vanalega.

Það vantaði bara ,,herslumuninn” í lokin. En hver skyldi þessi herslumunur vera? Mér finnst Einar Rafn lýsa þessu ágætlega í viðtali sínu við Jóhann Inga Hafþórsson á Morgunblaðinu, beint eftir leikinn á fimmtudag: „Við vit­um að við erum í það góðu lík­am­legu formi að við gef­um allt í síðustu 15, það sást en í 45 mín­út­ur var þetta í heild­ina frek­ar slappt. Þetta var ekki góður leik­ur af okk­ar hálfu.“

Eins marks tap á útivelli gegn sterku liði Vals, en við getum miklu betur. Það eru skilaboðin. Við erum hársbreidd frá sigri þegar við spilum í raun bara korter af fullri getu gegn liðinu sem er í öðru sæti þegar leikurinn fer fram. Er þá nokkuð að spyrja að úrslitum þegar okkar menn taka frumkvæðið og stýra leiknum frá upphafi? Ég held ekki.

Þá að markaskorurum leiksins á fimmtudag, til að loka uppgjörinu við þann leik. Einar Rafn var markahæstur með 7 mörk, þar af eitt úr víti. Óðinn Þór átti góðan leik á hægri vængnum líkt og Einar Rafn og skoraði 6 mörk, og eru þeir félagar nú jafnmarkahæstir í liði FH í deildinni. Jóhann Birgir og Arnar Freyr áttu sömuleiðis flottar frammistöður á vinstri vængnum, með 5 og 4 mörk. Jóhann Karl og Gísli Þorgeir skoruðu 3 mörk hvor, og þá skoraði Ísak 1 mark líkt og áður kom fram. Ágúst Elí varði 14 skot í markinu.

Markahæstir í liði FH það sem af er tímabili eru: Einar Rafn Eiðsson, 67 mörk í 10 leikjum, 6.70 að meðaltali í leik. Óðinn Þór Ríkharðsson, 67 mörk í 10 leikjum, 6.70 að meðaltali í leik. Jóhann Birgir Ingvarsson, 36 mörk í 10 leikjum, 3.60 að meðaltali í leik.

Ég er sannfærður um að knappt bil milli leikja komi sér í þetta sinn vel fyrir strákana okkar. Þeir þurfa ekki að bíða með það í viku, að leiðrétta það sem miður fór í síðasta leik. Frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu verða þeir tilbúnir í baráttu, því það dugir ekkert minna til sigurs í þessari deild.

Leikurinn í kvöld fer fram í Mýrinni (íþróttahúsinu við Fjölbrautaskólann) og hefst kl. 19:30 að Garðahreppstíma. Við á FH Handbolti viljum að sjálfsögðu hvetja alla til að mæta á völlinn og styðja á bak við strákana okkar í þessum mikilvæga leik. Rúnturinn er jú stuttur yfir í Garðabæ og það er ekkert skemmtilegra í sjónvarpinu!

Fjölmennum! Við erum FH!

– Árni Freyr

helstu2