Lið FH er í kjörstöðu þegar einni umferð er ólokið í Olísdeild karla, eftir frábæran sigur á nágrönnunum í Haukum á Ásvöllum. Strákarnir lögðu Íslandsmeistarana að velli með tveggja marka mun, 28-30, og eru fyrir vikið aðeins einu stigi frá því að landa titli sem hefur ekki haft samastað í Kaplakrika um langa hríð.

Það var augljóst frá upphafi leiks hvort liðið langaði meira í tvö stig, montréttinn og séns á deildarmeistaratitli í næstu umferð. FH-ingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru komnir með 6 marka forskot eftir aðeins korters leik, 4-10. Uppskriftin var einmitt sú sem hefur lagt grunninn að góðu gengi okkar manna í vetur, frábær varnarleikur og skynsemi í sókninni. Fyrirliðinn Ásbjörn Friðriksson, besti maður vallarins í gærkvöldi, var fljótur að hitna og fór fyrir FH-liðinu strax frá upphafi, bæði í markaskorun og stoðsendingum til liðsfélaga. Mikilvægt í leik sem þessum.

Fyrirliðinn steig upp svo um munaði á Ásvöllum í gærkvöldi, besti maður vallarins / Mynd: Jói Long

Fyrirliðinn steig upp svo um munaði á Ásvöllum í gærkvöldi, besti maður vallarins / Mynd: Jói Long

 

Gott lið á borð við Hauka finnur oftar en ekki leið til baka úr erfiðri stöðu, og það gerðu þeir í þessum leik. Þrátt fyrir að FH-liðið héldi forystu sinni út allan fyrri hálfleikinn, lengst af í 2-3 mörkum, þá var útlitið bjartara hjá heimamönnum eftir fyrsta korterið og stefndi allt í jafnan og spennandi leik til loka. Munaði mestu um framlag Króatísku skyttunnar Ivan Ivkovic hjá Haukum, sem strákarnir okkar áttu erfitt með að stoppa. Sá var greinilega með skotleyfi frá þjálfara sínum, og skotmaður er hann góður.

Þegar liðin héldu til búningsherbergja var FH með verðskuldað tveggja marka forskot, 14-16. Frábær byrjun hafði lagt grunninn að því, en ljóst var að mikil barátta var fyrir höndum líkt og ávallt þegar þessi lið mætast.

Liðin skiptust á að skora fyrstu mínútur síðari hálfleiks, en á 43. mínútu tókst Haukum að jafna metin í fyrsta sinn um nokkra hríð. Mínútu síðar skoruðu Haukarnir á nýjan leik og náðu í fyrsta sinn forystunni, og í kjölfarið tók Halldór Jóhann leikhlé. Var það tímabært, því bæði höfðu FH-ingar átt erfitt með að finna svör við varnarleik Hauka og þá varð að gera breytingar á varnarleik FH-liðsins.

Halldór Jóhann tók leikhlé í síðari hálfleik, sem sneri stöðunni okkur í vil / Mynd: Jói Long

Halldór Jóhann tók leikhlé í síðari hálfleik, sem sneri stöðunni okkur í vil / Mynd: Jói Long

Leikhlé þetta heppnaðist afar vel. FH-ingar fóru í framliggjandi vörn, sem að gerði helstu skyttum Hauka erfitt fyrir. Dró þessi varnarbreyting til að mynda verulega úr Ivkovic, en líkt og áður kom fram hafði hann valdið okkar liði miklum vandræðum fram að því.

Haukar héldu að vísu frumkvæðinu næstu 7 mínúturnar, voru á undan að skora, en alltaf svöruðu okkar menn. Hafði ég það á tilfinningunni, að það myndi koma að því að FH-liðið færi fram úr. Það var einhvern veginn aldrei spurning. Augljóst var, að strákarnir voru tilbúnir að berjast fyrir hvorn annan, fyrir fólkið í stúkunni og málstaðinn allan. Fyrir félagið.

Enda kom að því að við endurheimtum yfirhöndina. Á 55. mínútu skoraði Arnar Freyr Ársælsson afar dýrmætt mark og kom FH í 26-27. Þá fengum við mikilvægar markvörslur frá Ágústi Elí á lokamínútunum, og hjálpaði það málstað okkar gríðarlega. Okkar menn héldu síðan haus, spiluðu áfram af skynsemi og lokuðu þessum afskaplega stóra og mikilvæga leik. Lokatölur 28-30, og FH-ingar fyrir vikið í lykilstöðu fyrir lokaumferð deildarinnar.

Líkt og áður kom fram átti fyrirliði liðsins, Ásbjörn Friðriksson, frábæran leik með 9 mörk skoruð. Einar Rafn Eiðsson og Ágúst Birgisson áttu einnig góðan dag sóknarlega, með 6 mörk skoruð hvor. Annars dreifðist markaskorið afar vel á liðið, en alls komu 9 leikmenn liðsins boltanum í netið.

Stöðutaflan fyrir lokaumferðina. Næstu mótherjar, Selfyssingar, eru komnir í efri hluta deildarinnar eftir sterkan sigur á Val.

Stöðutaflan fyrir lokaumferðina. Næstu mótherjar, Selfyssingar, eru komnir í efri hluta deildarinnar eftir sterkan sigur á Val.

Staða FH-liðsins í deildinni, toppsætið, er nákvæmlega það sem liðið á skilið. Strákarnir hafa sýnt mikinn stöðugleika í vetur þrátt fyrir meiðslavandræði á köflum, spilað frábæran handbolta og sýnt það sem maður vill helst sjá frá þessum mikilvægu fulltrúum félagsins – baráttuvilja og liðsanda. Fram kom í umfjöllun RÚV fyrir leik að ekki væru ,,stjörnur“ innan liðsins sem helst væri leitað til þegar þörf væri á framlagi, heldur væri liðið jafnt. Ég er ekki sammála því að ekki séu stjörnur í liði FH – fyrir mér eru leikmenn liðsins helstu stjörnur Olísdeildarinnar – en eitt er víst, miðað við ,,fyrstu“ 26 umferðir deildarinnar, að besta lið deildarinnar kemur úr svarthvítum hluta Hafnarfjarðar. Stöðutaflan lýgur ekki.

Verkefnið er samt langt frá því að vera fullklárað. Næstkomandi þriðjudag, 4. apríl, kemur sterkt lið Selfoss í heimsókn í Kaplakrika. Með sigri eða jafntefli í þeim leik er raunin sú, að deildarmeistaratitillinn er kominn heim í fyrsta sinn í ansi mörg ár. Selfyssingar ætla sér ekki að hjálpa okkur til með það. Ungt og sprækt lið Sunnlendinga tryggði sér tilverurétt sinn í Olísdeildinni með sterkum sigri á Val í gærkvöldi, og þeir hafa takmarkaðan áhuga á því að vera eitthvert upphitunaratriði fyrir bikarhátíð. Þeir mæta til leiks, og það verða okkar menn – og við öll – að gera líka. Af fullum krafti.

Stuðningurinn við strákana okkar í gærkvöldi var hreint út sagt frábær. Sé mæting svarthvíta helmings Hafnarfjarðar borin saman við mætingu hins rauða, þá hefði allt eins getað verið um heimaleik að ræða. FH-ingar skynjuðu að mikið var undir, og studdu við bakið á strákunum í samræmi við það. Ég vil sjá aðra eins mætingu, annan eins stuðning og aðra eins ástríðu á pöllunum líkt og var í gær. Ég vil sjá okkur klára þetta dæmi með strákunum okkar, svarthvítu hetjunum. Mætum í Kaplakrika á þennan síðasta deildarleik tímabilsins, öll sem eitt, og vinnum þessa deild. Loksins.

Við erum FH!

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 9/1, Ágúst Birgisson 6, Einar Rafn Eiðsson 6/2, Arnar Freyr Ársælsson 2, Jóhann Karl Reynisson 2, Óðinn Þór Ríkharðsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1, Ísak Rafnsson 1, Jóhann Birgir Ingvarsson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 7, Birkir Fannar Bragason 3.