Það hefðu ekki margir veðjað á það fyrir tímabil, að þessi tvö lið myndu leika um Íslandsmeistaratitilinn. Önnur lið fengu athyglina lengst af vetri og gömlu stórveldin sigldu eilítið undir radarnum. Ekki hefði hvarflað að nokkrum, að allir titlar tímabilsins myndu enda í fórum þessara tveggja liða, eins og nú er ljóst að mun gerast. FH er deildarmeistari og deildarbikarmeistari, Valur er bikarmeistari. Hvort þessara sigursælustu liða íslensks handbolta hirðir þann allra stærsta?

18319235_2072492822977783_8577015620320496048_o

Andstæðingar okkar í kvöld, Valsmenn, hafa staðið í ströngu síðustu vikurnar. Vel hefur verið fjallað um Evrópuævintýri þeirra og þann vonda endi sem það hlaut, en þar voru þeir flautaðir úr keppni af tékkneskum dómurum leiksins. Nokkuð sem á ekki að sjást í nútíma handknattleik, en viðgengst því miður enn.

Hlíðarendapiltar höfðu ekki mikinn tíma til að svekkja sig á þeim úrslitum, enda þriðji leikur þeirra í rimmunni við Framara örfáum dögum eftir heimkomuna frá Rúmeníu. Hafi einhver haldið að þeir myndu mæta vængbrotnir til leiks í Safamýri, þá hefur sá hinn sami ekki fylgst með liði Vals í vetur. Karakterinn í liðinu er sterkur, og það sást vel er þeir reiddu sópinn á loft og sendu Safamýrarpilta í sumarfrí. Annars var það einvígi aldrei jafnt, Valsmenn unnu leikina þrjá með 10 marka mun að meðaltali – öruggara gerist það varla.

Valsmenn eru með vel skipulagt lið sem nýtir sína styrkleika vel. Þolinmæði í sóknarleik og feiknasterkur varnarleikur hefur verið þeirra aðalsmerki í vetur, þá sérstaklega varnarleikurinn. Þeir hafa átt það til að skella í lás þegar sá gállinn er á þeim, líkt og við FH-ingar fengum að kynnast í undanúrslitum bikarkeppninnar í febrúar.

Strákarnir okkar eru tilbúnir. En þú? / Mynd: Jói Long

Strákarnir okkar eru tilbúnir. Hvað með þig? / Mynd: Jói Long

Það er algjört lykilatriði, að strákarnir okkar nái að spila leikinn á morgun á sínum forsendum, að þeir keyri upp sitt tempó en láti ekki Valsliðið stýra ferðinni. Þegar FH-liðið spilar með sínu flæði, nær góðum varnarleik og hraðaupphlaupum er ekki til það lið sem getur stoppað það. Það hafa okkar menn sýnt. Við mættum erfiðum andstæðingi í Aftureldingu í síðustu umferð, en kláruðum þá af öryggi. Því einvígi stjórnuðu okkar menn frá A til Ö, og átti vel skipað lið Mosfellinga fá svör.

Strákarnir hafa fengið drjúgan tíma til að skoða andstæðinga kvöldsins, hafa hugsað vel um sig og æft vel. Þeir eru tilbúnir, og nú er komið að stóru stundinni. Strákarnir mæta til leiks, tilbúnir að taka frumkvæðið í þessu einvígi á okkar sterka heimavelli. Mætingin það sem af er úrslitakeppni hefur verið frábær, en nú skulum við mæta öll, og standa með okkar mönnum. Hrópum, köllum, klöppum, stöppum. Klæðumst okkar ástkæru litum, svörtum og hvítum. Gefum allt sem við eigum í þessum síðustu og stærstu leikjum tímabilsins. Gefum allt fyrir FH!

Koma svo!

Við erum FH!

sponsorar.nytt