Handboltaveturinn fer af stað með látum! Á morgun er fyrsti alvöru keppnisleikur tímabilsins hjá strákunum okkar, og er hann ekki af verri endanum.

Í sumar var dregið í fyrstu umferð undankeppni Evrópubikarsins (EHF Cup), en þar vorum við FH-ingar í pottinum. Um er að ræða fyrstu þátttöku félagsins í Evrópukeppni frá árinu 2011, þegar franska liðið St. Raphaël sló okkur út úr sömu keppni.

Upp úr pottinum kom að þessu sinni hið sögufræga tékkneska stórveldi Dukla Prag. Krefjandi og skemmtilegt verkefni, enda um ríkjandi Tékklandsmeistara að ræða.

Dukla Praha

Dukla Prag á rætur sínar að rekja til Tékkóslóvenska hersins og var stofnað árið 1948. Liðið var gríðarlega sigursælt á síðustu öld og hefur til að mynda orðið Evrópumeistari meistaraliða í þrígang, síðast árið 1984. Á árunum 1950-1992, frá stofnun félagsins og þar til Tékkóslóvakíu var skipt upp, varð félagið landsmeistari 28 sinnum. Aðeins hefur hægt á titlasöfnun félagsins frá því að það hóf að leika í Tékknesku deildarkeppninni, en 4 meistaratitlar hafa bæst í safnið frá þeim tíma. Síðasta titli sínum landaði félagið einmitt síðasta vor.

Félögin tvö eru ekki að leiða saman hesta sína í fyrsta sinn. Árið 1966 mættust þau í tvígang, heima og að heiman. Í þá daga var Dukla með eitt allra besta lið heims, og lagði FH-inga örugglega að velli með samtals 12 marka mun (43-31). FH-liðið var vel skipað, og hefur þar að auki skemmtilegar tengingar við það lið sem við teflum fram í dag. Birgir Björnsson, afi Ágústar Elí Björgvinssonar í marki okkar, lék með liðinu líkt og Árni Guðjónsson, afi Árna Stefáns Guðjónssonar aðstoðarþjálfara. Þá var Geir Hallsteinsson einnig leikmaður FH-liðsins í þá daga.

Líkt og stórveldi sæmir hefur Dukla Prag alið af sér góða leikmenn í gegnum tíðina. Einna þekktastur þeirra er að sjálfsögðu Filip Jicha, stórskytta og fyrrverandi samherji Arons Pálmarssonar hjá Kiel. Okkur Hafnfirðingum er síðan vel kunnugur annar leikmaður sem lengi lék með félaginu; sjálfur Petr Baumruk, fyrrum leikmaður Hauka og húsvörður á Ásvöllum. Hann var gífurlega sigursæll með Dukla í þau 10 ár sem hann lék með félaginu. Dukla varð 8 sinnum deildarmeistari, 8 sinnum bikarmeistari og landaði þar að auki Evrópumeistaratitli í tíð Baumruk, árið 1984.

Petr Baumruk í leik með Dukla Prag.

Petr Baumruk í leik með Dukla Prag.

FH er ekki eina íslenska liðið sem mætt hefur Dukla Prag í gegnum tíðina. Árið 1982 áttu Þróttarar úr Reykjavík sterkt lið sem komst alla leið í undanúrslit Evrópukeppni bikarhafa, hvar þeir mættu tékkóslóvenska stórveldinu. Því miður komust Köttarar ekki lengra en það, tvö töp með samanlagt 10 marka mun urðu reyndin og Dukla Prag, eins og við var að búast, aðeins of stór biti til að kyngja. Tékkóslóvakarnir töpuðu svo úrslitaeinvíginu gegn austur-þýska risanum SC Empor Rostock.

Dukla tók þátt í EHF-bikarnum á síðustu leiktíð. Í fyrstu umferð undankeppninnar mætti liðið KH BESA Famiglia frá Kosóvó og lagði það með fjögurra marka mun samanlagt. Fyrri leik liðanna, sem fram fór í Kosóvó, töpuðu Tékkarnir með fjórum mörkum, en heimaleikinn unnu þeir sannfærandi með átta mörkum.

Heimavöllur liðsins virðist vera sterkur því að í næstu umferð á eftir, gegn króatíska liðinu RK Nexe Nasice, vann liðið eins marks sigur. Stórt útivallartap varð hins vegar til þess að vegferð Dukla Prag varð ekki lengri en tvær umferðir það tímabilið.

Fróðlegt verður að sjá okkar menn spreyta sig á þessu stóra sviði. Töluvert langt er síðan FH fékk síðast tækifæri til að mæla sig upp við sterka erlenda andstæðinga í alvöru keppni, og ljóst er að því mun liðið læra mikið á. Holningin á strákunum okkar lofar góðu – spilamennska liðsins á Hafnarfjarðarmótinu var góð lengst af og virka piltarnir í flottu formi. Ef FH-ingar spila sinn leik eru þeim allir vegir færir í þessu tveggja leikja einvígi, það er ljóst.

Leikurinn hefst kl. 18:00 að íslenskum tíma á morgun, og verður aðgengilegur á netinu. Stefnt er á að setja hlekk á leikinn á Facebook-síðu okkar (FH Handbolti) um leið og hann er aðgengilegur, og viljum við hvetja alla FH-inga að kíkja á leikinn og senda jákvæða strauma til strákanna okkar í baráttunni í Tékklandi.

Sjáumst svo öll í Krikanum næstu helgi, þegar einvígið kemur heim. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!