Olísdeildin heldur áfram eftir landsleikjahlé annað kvöld þegar frestaður leikur okkar manna úr 6. umferð fer fram í Kaplakrika. Nýliðar Fjölnis úr Grafarvogi koma þá í heimsókn, í því sem er fyrsta viðureign liðanna í efstu deild frá upphafi.

 

Fjölnir

Nýliðar Fjölnis úr Grafarvogi hafa ekki farið jafn vel af stað á sínu fyrsta tímabili í deild þeirra bestu og þeir hefðu viljað. Þeir bíða enn eftir sínum fyrsta sigri, en hafa gert 2 jafntefli og eru því ásamt Víkingi í 10-11. sæti deildarinnar.

Fjölnisliðið rúllaði 1. deildinni hálfpartinn upp á síðustu leiktíð og tryggði sér sæti í efstu deild, sem lengi hafði legið fyrir að myndi koma að. Þótt stigamunurinn á Fjölni og ÍR hafi í lok leiktíðar verið aðeins 4 stig, þá var Fjölnisliðið afar sannfærandi frá upphafi tímabils og litu aldrei út fyrir að vera á leið í efstu deildar umspilið þriðja árið í röð.

Grafarvogsliðið er og hefur aðallega verið byggt upp á uppöldum strákum og eru þeir helstu burðarásar liðsins. Kristján Örn Kristjánsson, Donni, er ein af betri hægri skyttum deildarinnar og er algjör lykilmaður í liði Fjölnis. Undanfarin ár hefur hann hafnað mörgum tækifærum til þess að fara úr Fjölni og í efstu deild, en hefur haldið tryggð við uppeldisfélagið og spilar nú með því á stóra sviðinu. Breki Dagsson og Björgvin Páll Rúnarsson eru einnig flinkir Fjölnismenn sem eru í lykilhlutverkum, og þá eiga Fjölnismenn einn efnilegasta línumann landsins í Sveini Jóhannssyni.

FH-tengingin er sterk í liði Fjölnis. Fyrir tímabilið sóttu Fjölnismenn nefnilega liðsstyrk úr þrotabúi KR-inga, sem lögðu upp laupana eftir að hafa náð Olísdeildarsæti á frækilegan máta síðasta vor. Andri Berg Haraldsson, Bergur Elí Rúnarsson og Theodór Ingi (Ponza) Pálmason fluttu sig allir um set úr vestri og leika í gulu þetta tímabilið. Það hefur verið Fjölnisliðinu góður styrkur, Bergur Elí er afar frambærilegur hornamaður sem á fullt erindi í efstu deild og þá hafa Andri Berg og Theodór Ingi komið með mikla festu í varnarleik liðsins (það sem af er eru þeir með flestar brottvísanir allra í deildinni – Andri með 8 og Teddi með 9 – þrátt fyrir að eiga leik til góða).

Gengi nýliðanna í þessum fyrstu 6 leikjum hefur verið æði misjafnt. Gegn Val og ÍBV hafa þeir sýnt góðar frammistöður – töpuðu þeir með aðeins einu marki gegn Val og gerðu jafntefli gegn ÍBV þar sem þeir hefðu í raun átt að vinna sigur. Inn á milli hefur liðið hins vegar fengið skelli gegn Selfossi (10 marka tap) og ÍR (16 marka tap).

Í síðustu viku kom það svo upp að formaður handknattleiksdeildar Fjölnis sagði þjálfara liðsins, Arnari Gunnarssyni, upp störfum án þess að á bak við það væri almennur vilji stjórnarinnar – sumsé að eigin geðþótta, að því er virðist vera. Eftir því sem Ívar Benediktsson á Morgunblaðinu greinir frá í morgun hefur Arnar hins vegar ekki lagt niður störf í Dalhúsum, heldur hefur hann stýrt æfingum hjá Fjölni eftir að þetta atvik átti sér stað. Það má því búast við því að hann standi á hliðarlínunni í Krikanum annað kvöld. Það er af hinu góða fyrir Fjölni, enda verður ekki um það deilt að Arnar hefur gert frábæra hluti með þennan hóp af strákum.

Síðasta leik sínum töpuðu Fjölnismenn eins og áður sagði gegn Stjörnunni, lokatölur voru 29-32 Garðbæingum í vil. Þar voru Garðbæingar með 5 marka forystu í hálfleik, og voru Fjölnismenn því í raun talsvert frá því að ná í úrslit í þeim leik. Athyglisvert verður að sjá hvernig þeir mæta til leiks í Krikanum annað kvöld, enda hefur spilamennskan almennt verið betri gegn þeim liðum sem berjast í efsta hluta deildarinnar.

Ágúst Elí fékk tækifæri gegn Svíum, ásamt Gísla Þorgeiri og Óðni Þór / Mynd: Jói Long

FH

Strákarnir okkar koma inn í leikinn gegn Fjölni með byr í seglum. Síðasti leikur fyrir landsleikjahlé var vægast sagt frábær af okkar hálfu, en í honum lögðu strákarnir sterkt lið Vals að velli á Hlíðarenda með 12 marka mun. FH-liðið er því eitt, og ósigrað, á toppi deildarinnar með þennan hörkuleik til góða.

Hvað er hægt að segja um þennan leik sem hefur ekki þegar verið sagt? Strákarnir voru geggjaðir á báðum endum vallarins gegn ríkjandi Íslands-og bikarmeisturum. Það gekk allt upp. Þegar þeir eru í þessum ham, þá á ekkert lið í deildinni séns. En þessi leikur er búinn. Hann gefur okkur ekkert annað kvöld. Fjölnisleikurinn er óskrifað handrit, nýliðarnir þrá ekkert heitar en fyrsta sigur tímabilsins og munu selja sig ansi dýrt til ná honum. Við þurfum að mæta þeim af nákvæmlega sömu festu og ákveðni og við mættum liði Vals. Engin spurning.

Landsleikjahléð reyndist okkar mönnum vel, því þar fengu þrír af okkar strákum tækifæri með A-landsliðinu í æfingaleikjum gegn Svíum. Ágúst Elí Björgvinsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Óðinn Þór Ríkharðsson fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína, og stóðu sig allir með prýði. Það verður afar gaman að fylgjast með þeim í framhaldinu, er þeir leitast við að vinna sér inn sæti í landsliðshópnum sem fer á næsta stórmót í Króatíu í janúar.

Það sem af er tímabili hefur ekkert lið staðist okkar mönnum snúning. Ekkert lið spilar skemmtilegri handbolta, skorar fleiri mörk eða stendur vörnina betur. Það er hrein skemmtun að mæta á völlinn. Kæru FH-ingar, höldum áfram að mæta vel á völlinn og styðja við bakið á þessum mögnuðu drengjum. Þessum fræknu fulltrúum Fimleikafélagsins. Tryggjum okkur tvö stig í Krikanum á morgun og bætum við forskot okkar á toppnum – þar er bæði hlýtt og gott. Við viljum hvergi annars staðar vera.

Kaplakriki, 1. nóvember 2017 kl. 19:30. Sjáumst þar.

Við erum FH!